Eggert Pétursson hefur um árabil vakið athygli fyrir einstakan og ástríðfullan áhuga á íslenskri náttúru og þá sérstaklega flóru landsins. Í Sverrissal Hafnarborgar verða sýnd ný verk, þar á meðal málverk sem hann hefur unnið sérstaklega fyrir sýninguna á undanförnum misserum. Í verkunum heldur hann áfram rannsókn sinni á íslenskri náttúru en að þessu sinni beinir hann sjónum sínum eilítið upp á við að fjallagróðri og opnum himni.
Eggert er þekktur fyrir nákvæma athugun á náttúrunni þar sem smæstu jurtir verða að stórbrotnu landslagi á myndfletinum. Í nýju verkunum má greina sömu nánd og næmi fyrir lit og formi, þar sem gróðurinn og yfirborð jarðar breytast í fínstillta myndbyggingu sem endurspeglar tíma, birtu og breytileika landsins.
Á sýningunni er einnig sería nýrra grafíkverka sem listamaðurinn hefur unnið í tengslum við væntanlega útgáfu nýrrar íslenskrar þýðingar á Paradís úr Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante, sem lýsir ferðalagi sálarinnar í átt til ljóssins, friðarins og hins guðdómlega. Í verkum Eggerts kallast þessi andlegi og táknræni heimur á við jarðneska og efnisbundna sýn listamannsins, þar sem sjá má hvernig hann vinnur áfram úr formum og mynstrum úr náttúrunni í öðru samhengi.
Eggert leiðir áhorfandann þannig á ný inn í náttúruna, sem hann hefur lengi fengist við, með víðari sýn yfir landið, þar sem ljós og myrkur takast á. Þar blandast persónuleg tenging Eggerts við landið við hugleiðingar um náttúru, tíma og tilvist í verkum sem vísa bæði út í heim og inn í hugann, sem og eilífa leit mannsandans að fegurð og merkingu.
Eggert Pétursson (f. 1956) býr og starfar í Reykjavík. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Jan van Eyck Academie í Maastricht. Verk hans hafa meðal annars verið sýnd í Nýlistasafninu, Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Nordatlantensbrygge í Kaupmannahöfn og Pori Art Museum í Finnlandi. Jafnframt má nefna að Eggert hlaut önnur verðlaun Carnegie Art Award 2006 (Osló, Stokkhólmur, Helsinki, Reykjavík, Kaupmannahöfn og Nice). Þá myndskreytti Eggert vinsæla útgáfu af Íslenskri flóru eftir Ágúst H. Bjarnason sem kom fyrst út árið 1983. Eggert starfar með i8 gallerí í Reykjavík þar sem hann hefur oftsinnis sýnt. Ýmsar bækur tileinkaðar verkum hans hafa einnig verið gefnar út.
Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir.