Óþekkt alúð

Haustsýning Hafnarborgar 2024

Sýningin sprettur út frá þörfinni að finna töfra í heimi sem virðist að mörgu leyti vera göldrum firrtur, á tímum án bjartrar vonar. Út frá þrá í hið yfirskilvitlega á tíma þar sem allt virðist þurfa að vera skilgreinanlegt. Þá er titill sýningarinnar tilkominn út frá hugsun um töfra sem fela í sér sameiginlega heilun og hugmynd um betri heim – nokkuð sem sumir kynnu að kalla háleitt eða óraunsætt. Ekkert er þó svo fráleitt að ekki sé hægt að láta sig dreyma um það. Um töfra sem bera eiginleika alúðar – sem flestir taka ekki eftir í hversdagsleikanum – en þessi alúð skilgreinir veruleikann sem við lifum í á vegu sem við getum ekki beinlínis komið orðum að. Tilfinning sem er uppfull af óbeisluðum kærleik og óendanlegum möguleikum.

Þessi óþekkta alúð er þó alltaf til staðar, þrátt fyrir að hún sé ekki svo sterk tilfinning þegar á móti blæs, en listamennirnir horfast í augu við þessa alúð hver á sinn hátt. Þá eru fólgnir töfrar í því að leyfa hlutum að vera það sem þeir eru án þess að þurfa að ná utan um þá, með tilheyrandi skilgreiningarþráhyggju. Listaverk geta þannig verið væmin og skörp á sama tíma, rétt eins og þau geta fangað þversagnir, sem við fyrstu sýn virðast þurfa að útiloka hver aðra svo að eitt fái að ríkja en eru þegar öllu er á botninn hvolft óneitanlega tengdar hver annarri, svo sem sársauki og tilfinningalegur þroski, áföll og heilun, gleði og sorg.

Hvað gerist svo þegar við hugsum um þessi hugtök sem hliðstæður í margfeldi frekar en andstæður í tvíhyggju? Á sýningunni kunnum við að komast að ýmsu um okkur sjálf, um hvert annað og plánetuna okkar – líkt og sýningarstjóri og listamenn hafa lagt áherslu á í sínu samstarfi við undirbúning sýningarinnar – í gegnum viðstöðulaus samtöl og sameiginlega úrvinnslu, þar sem heilun, alkemía innri heima, mæðrun og stofnun nornasveims verða að vörðum á leiðinni til nýs skilnings.

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru:

Björg Þorsteinsdóttir (1940-2019, Íslandi)
Sigríður Björnsdóttir (1929, Íslandi)
Suzanne Treister (1958, Bretlandi)
Tabita Rezaire (1989, Frönsku Gvæjana)
Kate McMillan (1974, Bretlandi)
Hildur Hákonardóttir (1938, Íslandi)
Ra Tack (1988, Belgíu)
Kristín Morthens (1992, Íslandi)
Tinna Guðmundsdóttir (1979, Íslandi)
Elsa Jónsdóttir (1990, Íslandi)
Juliana Irene Smith (1977, Bandaríkjunum/Finnlandi)
Kata Jóhanness (1994, Íslandi)
Patty Spyrakos (1974, Bandaríkjunum)
Edda Karólína (1991, Íslandi)

Sýningarstjóri er Þórhildur Tinna Sigurðardóttir.

Sýningin er sú fjórtánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en markmiðið með sýningarröðinni er að bjóða upp á vettvang fyrir upprennandi sýningarstjóra til að koma hugmyndum sínum á framfæri.