Ósýndarheimar

Kristín Helga Ríkharðsdóttir, Meriem Bennani, María Guðjohnsen, Bita Razavi, Helena Margrét Jónsdóttir, Inari Sandell

Í Ósýndarheimum verður sjónum beint að stafrænni list, ljósmyndun, hreyfimyndum, raunsæi og ofurveruleika. Listamennirnir takast hver um sig á við hugmyndir um raunveruleika og sýndarleika sem birtast í verkum þeirra, þar sem viðfangið er aftenging, kvíði og sú gráglettni sem einkennir þá kynslóð sem nú lifir og hrærist í umhverfi nýmiðlunar. Með því að beita fyrir sig stafrænum tjáningarmöguleikum draga þau fram satíruna sem felst í streituvaldandi lífsmynstri 21. aldarinnar, auk þess að gefa gaum að hvers kyns tilvistarkreppum, loftslagsvánni og hruni vistkerfa, mannlegu eðli og spillingu kapítalismans. Verk þeirra vekja jafnvel upp hugleiðingar um það hvernig veröld ofurveruleikans getur leitt til firringar og aftengdrar tilvistar.

Listamenn sýningarinnar Ósýndarheima nálgast hið „stafræna“ fyrst og fremst út frá hugsun og hegðun, í stað þess að taka sérstaklega viðmið af miðlum eða aðferð. Vinna þeir með þrívíða miðla, teikningu, vídeó og ljósmyndun, auk stafrænna ferla við gerð skúlptúra og málverka, sem vísa til þeirra óskýru marka sem eru á milli raunveruleikans og hermiheimsins. Stuðst er við hreyfimyndir og hið stafræna til þess að rýna félagslegt ástand á líðandi stundu en listamennirnir í Ósýndarheimum vísa til stafrænna upplifana í því skyni að varpa ljósi á hinn óhlutbunda veruleika, sem og þá spillingu og eyðileggingu sem viðgengst í umhverfi okkar. Þá ganga listamennirnir út frá því að aðgreining og tilvistarangist séu meðal afleiðinga stafræns sýndarveruleika og spyrja loks hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir samfélag sem er orðið háð nettengdum kerfum og stafrænum tjáningarmátum í stað mannlegra samskipta.

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Kristín Helga Ríkharðsdóttir, Meriem Bennani, María Guðjohnsen, Bita Razavi, Helena Margrét Jónsdóttir og Inari Sandell.

Sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.