Neisti

Hanna Davíðsson

Í Sverrissal stendur yfir sýning á verkum Hönnu Davíðsson, konu sem bjó og starfaði í Hafnarfirði við upphaf 20. aldar þegar íslenskar konur hlutu kosningarétt árið 1915. Hanna er á meðal þeirra kvenna sem Hrafnhildur Schram fjallar um í bók sinni Huldukonur í íslenskri myndlist en þar varpar hún ljósi á ævi og störf tíu íslenskra kvenna sem námu myndlist erlendis um aldamótin 1900. Engin þeirra gerði myndlist að ævistarfi og aðeins tvær héldu sýningar á verkum sínum. Hanna var fædd Johanne Finnbogason árið 1888, en breytti nafni sínu í Hanna Davíðsson árið 1912 þegar hún gekk í hjónaband. Þó hún hætti að vera listakonan Johanne Finnbogason og yrði frú Hanna Davíðsson voru pensillinn og blýanturinn förunautar hennar nánast alla ævi.

Á sýningunni Neisti eru teikningar og málverk frá ýmsum tímum, litlar myndir sem sýna viðfangsefni úr næsta nágrenni einkum blóm, fólk og umhverfið í Hafnarfirði auk ljósmynda sem varðveittar eru í Byggðasafni Hafnarfjarðar. Ljósmyndirnar hafa fæstar verið sýndar áður og eru af filmum sem fundust undir gólfi Sívertsenhúss í Hafnarfirði. Hanna bjó um tíma í Sívertsenhúsi en það er nú hluti af Byggðasafninu. Á meðal þess sem liggur eftir Hönnu eru skreytingar í Fríkirkjunni í Hafnarfirði.

Dagskrá:
Sunnudagur 25. janúar kl. 15
Leiðsögn.