Landslag fyrir útvalda

Haustsýning Hafnarborgar 2023

Á sýningunni Landslag fyrir útvalda eru ólíkar hliðar veruleikaflótta kannaðar. Við búum í heimi öfgafullra yfirvofandi breytinga, þar sem samfélagið kallar eftir því að einstaklingar beri í síauknum mæli ábyrgð á hnattrænum vandamálum. Að leita á vit flóttans er því orðinn stór hluti hversdagsleikans.

Veruleikaflóttinn sem slíkur er ekki nýtt fyrirbrigði, heldur hefur hann fylgt okkur um aldanna rás. Birtingarmyndir hans eru og hafa verið margbreytilegar en eiga það flestar sameiginlegt að endurspegla það ástand sem ætlunin er að flýja. Auk þess getur flóttinn haft mótandi áhrif á þann sem kýs að flýja á vit annarra heima.

Sýningunni er ætlað að velta upp spurningum á borð við: Hvers vegna flýjum við? Er flóttinn góður eða slæmur? Hvaða ástand flýjum við í dag? Hvert er landslag veruleikaflóttans? Og hver hefur aðgang að því?

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Arna Beth, Fritz Hendrik IV, Margrét Helga Sesseljudóttir, Sól Hansdóttir, Vikram Pradhan, Bíbí Söring og Þrándur Jóhannsson, auk þess sem sýnd eru verk eftir Eirík Smith, Patrick Huse og Sigrid Valtingojer úr safneign Hafnarborgar og Listasafns ASÍ.

Sýningarstjórar eru Eva Lín Vilhjálmsdóttir og Odda Júlía Snorradóttir.

Sýningin er sú þrettánda í haustsýningarröð Hafnarborgar en markmiðið með sýningarröðinni er að bjóða upp á vettvang fyrir upprennandi sýningarstjóra til að koma hugmyndum sínum á framfæri.