Það er vel við hæfi að sýning Kristbergs Ó. Péturssonar skuli opna í Hafnarborg strax í kjölfar stórrar yfirlitssýningar á verkum Eiríks Smith. Þótt allnokkur aldursmunur sé á þessum tveimur listmálurum, þá eiga þeir ýmislegt sammerkt. Báðir eru rótgrónir Gaflarar og öflugir þátttakendur í myndlist samtímans á þroskaárum sínum, Eiríkur innan hreyfingar abstraktmálara og Kristbergur meðal nýexpressjónista og grafíklistamanna á níunda áratugnum. Eftir ýmiss konar kúvendingar mörkuðu báðir sér á endanum stefnu til hliðar við meginstraum myndlistarinnar, þar sem viðmiðið var oftar en ekki hrjóstrugt hraunlandslagið í og umhverfis heimabæ þeirra, Hafnarfjörð.
En þar lýkur eiginlegum samanburði. Meðan Eiríkur nálgast náttúruna sem hann sér eða man utan frá, opnar hana upp á gátt, þjappar henni saman eða staflar upp í samræmi við þann boðskap sem hann vill leggja áherslu á hverju sinni, þá beinist öll viðleitni Kristbergs að því að gefa til kynna lífið sem hann skynjar með náttúrunni hið innra. Hér er ekki úr vegi að skoða málverk hans í samhengi við verk Jóhannesar Kjarvals á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar. Þá var það sem náttúrutengdar vættir af ýmsum toga hófu að krefjast tilveruréttar í landslagsmyndum meistarans; hraunbreiður og steindysir í þessum myndum verða fyrir þrýstingi innan frá, þrútna og þenjast út eins og lífhimnur undir álagi, á endanum standa eftir á fletinum alls konar verur í mannsmynd.
Í þessum verkum er náttúruskynjun Kjarvals hins vegar mun antrópómorfískari – mannsæknari – en sú sem við okkur blasir í málverkum Kristbergs. Hraunlandslag er að sönnu höfuðviðfangsefni Kristbergs, hins vegar hefur hann takmarkaðan áhuga á staðfræði þess, táknrænu gildi eða bókstaflegri merkingu fyrir okkur sem erum þess aðnjótandi, heldur kappkostar hann að nálgast það á forsendum þess sjálfs. Um leið eru málverk hans og vatnslitamyndir ekki einskærar frásagnir af fyrirbærinu „hraun“ , heldur frjálsleg tilbrigði „um“ það, með nauðsynlegum tilhliðrunum, einföldunum og ýkjum. Markmiðið er ævinlega að gera það lifandi og virkt fyrir okkur áhorfendum sem hvorttveggja í senn, hraun og myndverk.
Fyrir Kristbergi eru lífsorka og áhrifamáttur hraunsins fólgin í því hvernig það bregst við birtunni, svolgrar hana í sig þar sem gjótur eru dýpstar, temprar hana og deyfir þar sem hún leikur á yfirborði þess, mýkir hana þar sem hún fellur á mosa, brýtur hana upp þar sem það er harðhjóskulegast. Sannfæring hans er sú að það sé ekki fyrir litrófið, heldur víxlverkan skugga og birtu sem við skynjum hið „sanna andlit“ hraunsins. Í strangasta skilningi eru myndir hans því ekki málaðar út frá grunneiningum krómatísks litaskala, heldur byggðar upp með málningu, skref fyrir skref, í samræmi við ljós-og-skuggamálverk (chiaroscuro) og aðferðafræði sígildra málara á borð við Leonardo, Vélazquez og Rembrandt.
Sérhver þessara mynda er þolinmæðisverk, þar sem málarinn leggur hvert gagnsætt eða hálfgagnsætt olíulagið ofan á annað, misjafnlega þunn í samræmi við þá birtu og áferð sem hann vill hafa til staðar á fletinum eða rýmið sem hann vill skapa. Þessi lög geta numið mörgum tugum. Áferð er sömuleiðis hægt að stjórna með því að ýfa eða skrapa málaðan flötinn með ýmsum hætti, endurmála hann síðan eftir hentugleikum.
Í höndum Kristbergs verður dimmleitur og áferðarríkur flöturinn eins og ævagamall og hálfgagnsær hamur eða hlífðarlag utan um lifandi innviði sem eiga sér enga hliðstæðu í anatómíu mannsins, öfugt við það sem gerist í áðurnefndum málverkum Kjarvals. Þessir innviðir stjórnast af eigin lögmálum, eru síkvikir og taka sífelldum breytingum, tvístrast, rekast á og leysast upp. Líta má á smáheim þessara verka sem eins konar endurspeglun alheims, makrókosmos, með óravíddum og ógnaröflum sínum.
Ekki er fráleitt að skoða þessi verk Kristbergs út frá hugmyndafræði lífsorkukenningar – vítalisma – sem nú hefur að vísu verið afskrifuð sem vísindi, en var engu að síður hugmyndalegt haldreipi margra abstraktmálara snemma á síðustu öld. Til að mynda hélt listheimspekingurinn Herbert Read fram mikilvægi þessarar kenningar, sem í stuttu máli gekk út á það að ein af grunnstoðum abstraktmálverks væri arftekin „lífræn vitund“ hvers manns, sprottin af margra alda samneyti hans við náttúruna. Listamaðurinn umbreytti þessari vitund í lífræna abstraktlist sem jafnframt endurpeglaði viðhorf hans, sem hugsandi veru, til alheimsins.
Hvað sem því líður er óhætt að segja að eftir margra áratuga samneyti við hraunið í heimabyggð sé það nú runnið Kristbergi í merg og bein, móti í flestu viðhorf hans til náttúru og alnáttúru.
Kristbergur Ó. Pétursson (f. 1962) hefur helgað sig að mestu málaralist allt frá upphafi níunda áratugarins. Hann kom fyrst fram sem hluti af bylgju listmálara sem kenndir eru við nýja-málverkið, kraftmikið málverk sem ögraði og braut hefðir. Kristbergur hefur þróað list sína í átt að hinu óhlutbundna þar sem litaflæði og andrúm sækja í oft myrkar náttúrustemmur og drunga en myndefnið er oftar en ekki hrjóstrugt hraunlandslagið í og umhverfis heimabæ hans, Hafnarfjörð. Sérhver mynd er þolinmæðisverk, þar sem Kristbergur leggur hvert olíulagið ofan á annað í samræmi við áferð og birtu verkanna. Áferðarríkur og dimmleitur flöturinn verður eins og ævagamall og hálfgagnsær hamur eða hlífðarlag utan um lifandi innviði. Eftir margra áratuga samneyti við hraunið í heimabyggð má segja að það móti í flestu viðhorf hans til náttúru og heimsmyndar.
Sýningartexti eftir Aðalstein Ingólfsson.