Japönsk nútímahönnun 100

Japönsk nútímahönnun 100 er farandsýning sem leggur áherslu á hönnun nytjahluta frá árunum 2010 – 2017 en þar hafa hundrað vandaðar hönnunarvörur verið valdar til sýningar um allan heim. Á sýningunni er að finna hversdagslega gripi sem sýna ekki aðeins fremstu hönnun og nýjustu stefnur í Japan, heldur varpa einnig ljósi á líf og áherslur fólks, sem lifir og hrærist í japanskri samtímamenningu.

The Japan Foundation er sértæk stofnun innan japanska ríkisins sem komið var á fót árið 1972 í þeim tilgangi að efla alþjóðlegan skilning með miðlun menningar. Stofnunin hefur umsvif á fjölda sviða, þar sem hún leggur sitt af mörkum til alþjóðlegs samtals með miðlun lista og menningar, auk þess að gangast fyrir kennslu í japönsku á erlendum vettvangi og ýta undir fræðilega orðræðu og rannsóknir í japönskum fræðum. Í samvinnu við erlend söfn kemur stofnunin að margvíslegum sýningum, frá alþýðulist til nútímalistar, með það að sjónarmiði að auka skilning á japanskri menningu í gegnum mynd- eða sjónlist.

Á sviði sjónlista, setur stofnunin upp farandsýningar með verkum úr safneign sinni en þær ferðast á milli landa um allan heim. Efni þessara sýninga er fjölbreytt, allt frá málverkum og ljósmyndum til japanskra brúða, handverks og hönnunar. Um þessar mundir eru tugir slíkra farandsýninga í gangi víðs vegar um heim og hafa þær fengið góðar viðtökur gesta.

Sýningin Japönsk nútímahönnun 100 var fyrst sett upp árið 2004 og hefur hún farið um heiminn síðan. Þetta er endurskipulögð útgáfa sömu sýningar en hún varpar ljósi á hundrað afbragðsdæmi um japanska hönnun með áherslu á vörur eða hluti úr daglegu lífi. Þá fléttar hún saman framúrskarandi nýjum hönnunarvörum við hönnun frá fimmta til tíunda áratugar síðustu aldar, sem haft hefur mikil áhrif á nútímahönnun.

Hönnun hversdagslegra hluta endurspeglar daglegt líf og lifnaðarhætti í samfélagi okkar, jafnt sem lífsmáta einstaklingsins. Þessar hönnunarvörur gefa skýra mynd um vonir og drauma þeirra sem nota vörurnar, svo og þeirra sem hönnuðu eða bjuggu þær til. Markmið sýningarinnar er að auka þekkingu gesta á nýjum straumum og stefnum í japanskri hönnun á sama tíma og hún megi veita þeim innsýn í eðli japanskrar menningar í dag.