Í tíma og ótíma

Arna Óttarsdóttir, Leslie Roberts og Amy Brener

Á sýningunni er sjónum beint að margvíslegum birtingarmyndum tímans í verkum ‏þ‏‏riggja alþjóðlegra samtímalistakvenna, þeirra Örnu Óttarsdóttur, Amy Brener og Leslie Roberts. Á sý‎ningunni er tíminn skoðaður í víðu samhengi, allt frá heimspekilegum vangaveltum um hugtak og eðli tímans, til þeirrar persónulegu túlkunar á samtímanum sem einkennir verkin, en hugleiðingar um tíma fléttast á mismunandi hátt inn í verk ‏og vinnuaðferðir allra þriggja.

Ofin verk Örnu Óttarsdóttur eru unnin út frá teikningum og skrifum sem hún færir yfir í margslunginn og flókinn myndvefnað. Oft er þar að finna hraðar teikningar, innkaupalista eða brot sem virðast undarlega kæruleysisleg eða tilviljunarkennd. Arna færir hið persónulega og hraðsoðna yfir í hinn hæga miðil myndvefnaðarins, þar sem hvert krot fær hárnákvæma og yfirvegaða útfærslu. Í verkunum blandast handgert og stafrænt vinnuferli á áhugaverðan hátt, frá hröðum teikningum yfir í stafræna vinnslu og svo að lokum aftur yfir í handunnið og afar seinlegt ferli vefnaðarins.

Leslie Roberts færir fundin orð úr sínu hversdagslega umhverfi yfir í flókið kerfi forma og lita. Orðin tekur hún til dæmis frá umferðarskiltum, leiðarvísum strætisvagna eða yfirskriftum dagblaða. Oftast er um að ræða hversdagsleg augnablik sem hún safnar og túlkar á sinn eigin hátt í geómetrískum og litríkum kerfum. Verkin eru fínleg en þó án óþarfa fullkomnunaráráttu, þar sem listakonan leyfir mistökum að standa án þess að stroka nokkuð út eða fela. Þannig finnur maður sterkt fyrir handbragði listakonunnar sem og tímanum sem hún hefur varið í að skapa verkin.

Amy Brener býr til‎ þ‏rívíð verk sem virðast sprottin úr öðrum heimi. Í verkunum skeytir hún saman fjölda kunnuglegra smáhluta sem bera með sér mismunandi sögur og hversdagslegar tilvísanir. Óvæntar samsetningar ólíkra hluta endurspegla samtíma sem einkennist af neysluhyggju og offramleiðslu. Líta má á verk hennar sem tilraun til að frysta tímann, þar sem hún safnar ummerkjum um okkar samtíma sem hún steypir í varanleg form, líkt og hún vilji búa til minnismerki fyrir framtíðina.

Handverkið sem finna má í verkum listakvennanna þ‏riggja ber merki um þrá eftir hægagangi og íhugun í mótsvari við hraða samtímans. Verk ‏þeirra mætti þannig lesa sem tilraun til að stöðva tímann eða jafnvel til þess að stíga út úr samtímanum og inn í óræðan tíma listaverksins.

Sýningarstjóri er Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir.

Sýningin hlaut styrk úr myndlistarsjóði.


Um listakonurnar

Arna Óttarsdóttir (f. 1986, Íslandi) lauk BFA-námi frá Listaháskóla Íslands árið 2009 og hefur haldið reglulegar sýningar síðan, ein og með öðrum, innanlands og utan. Á nýliðnum árum hefur hún haldið markverðar einkasýningar í Nýlistasafninu, i8 Gallerí og Harbinger. Árið 2021 voru verk hennar til sýnis á sýningunni Iðavöllur: Íslensk list á 21. öldinni í Listasafni Reykjavíkur. Verk hennar hafa til dæmis verið sýnd í Nordatlantens Brygge, Kaupmannahöfn; Turner Contemporary í Margate; Åplus í Berlín; Cecilia Hillström-galleríinu, Stokkhólmi and Asya Geisberg-galleríinu í New York. Arna býr og starfar í Reykjavík.

Leslie Roberts (f. 1957, Bandaríkjunum) vinnur verk sem drifin eru af litum, tungumáli og sjálfssettum reglum. Hún hefur haldið sýningar í New York-borg og víða um Bandaríkin, til dæmis í Minus Space, Marlborough-galleríinu, McKenzie Fine Art, 57W57 Arts, Pierogi, Kathryn Markel, Tiger Strikes Asteroid NY, PPOW, og Brooklyn-safninu í New York; Weatherspoon-listasafninu (Greensboro, North Carolina); og Wellin-safninu (Clinton, New York). Árið 2024 fékk hún styrki frá Gottlieb-sjóðnum og Pollock Krasner-sjóðnum. Hún hefur dvalið sem listakona í Yaddo, Ucross, Ragdale, Virginiu-listamiðstöðinni, Skowhegan, og víðar. Hún er með BA-gráðu frá Yale og MFA frá Queens College. Leslie hefur búið í Brooklyn í rúmlega þrjá áratugi og er Professor Emerita við Pratt-stofnunina.

Amy Brener (f. 1982, Kanada) býr og starfar í New York. Hún útskrifaðist með MFA-gráðu frá Hunter College árið 2010 og nam við Skowhegan School of Painting and Sculpture 2011. Verk hennar hafa verið sýnd í galleríum og stofnunum í Bandaríkjunum, Kanada, Evrópu og Kína. Þar ber hæst sýningar í MoMA PS1 í New York, Aldrich-nýlistasafninu í Connecticut, Nasher-skúlptúrmiðstöðinni í Dallas, Speed-listasafninu í Kentucky, Galerie Pact í París, Wentrup-galleríinu í Berlín, MacLaren-listamiðstöðinni í Ontario og Riverside-listasafninu í Beijing. Um verk hennar hefur einnig verið fjallað í prentmiðlum á borð við The New York Times, Art in America, Vogue, CURA, Hyperallergic, Artnet News og The Brooklyn Rail. Hún er aðstoðarprófessor við Hamilton College í Clinton, New York.