Árið 1945 sótti Guðmunda Andrésdóttir, þá tuttugu og þriggja ára gömul, sýningu Svavars Guðnasonar í Listamannaskálanum, þar sem hann sýndi óhlutbundin málverk, en Guðmunda lýsti upplifun sinni af sýningunni á þessa leið:
„Ég hreinlega ruglaðist þegar ég sá þá sýningu!… Og þá fór ég að hugsa um að byrja að mála. Það var eins og rothögg. Já, þetta var geysilega fín sýning og ég fór aftur og aftur.“[1]
Flestir kannast eflaust við að hafa einhvern tímann orðið fyrir svipuðum hughrifum, líkt og listin hitti beint í hjartastað. Hvort heldur sem fólk stendur fyrir framan málverk á myndlistarsýningu, hlustar á tónlist, horfir á kvikmynd eða les nýja bók, þar sem tilfinningin er nánast eins og augun hafi verið lokuð alla ævi en opnist nú loksins og við blasi önnur heimsmynd, ný sýn á lífið. Guðmunda varð sjálf fyrir slíkum áhrifum á sýningu Svavars, líkt og ráða má af orðum hennar, og gaf hún sig á vald myndlistinni alla tíð síðan.
Guðmunda var ein þeirra listamanna sem unnu í anda geómetrískrar abstraksjónar á Íslandi en hún sýndi til að mynda með Septem-hópnum á síðustu sýningu hópsins í fyrri sýningarhrinu hans árið 1952 og svo aftur á árunum 1974-88. Guðmunda var enn fremur eina konan sem sýndi með hópnum en á þessum tíma, á árunum eftir stríð, litu myndlistarmenn, konur og karlar, sérstaklega til óhlutbundins myndmáls í leit sinni að alþjóðlegu tungumáli sem tjá mætti hreinan sannleika, sameiginlegan öllum mönnum, óháð uppruna og aðstæðum, líkt og nótur tónlistarinnar.
Þetta er fyrsta sérsýningin á verkum Guðmundu Andrésdóttur í Hafnarborg en verkin á sýningunni eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Háskóla Íslands, auk verka í eigu Listasafns ASÍ og einkaeigu. Verkin eru unnin í ólíka miðla, olíumálverk, vatnslitamyndir, blýantsskissur og fleira, en í þeim má greina leik listakonunnar að efninu, sem og leit hennar að eins konar æðri sannleik – í formum, lit og flæði hvors tveggja.
Í verkunum mætast þannig hinar eiginlegu andstæður, hin ljóðræna hneigð og regluverkið, næmnin og útreikningurinn, sem vekja spurninguna um mikilvægi þess að skynja til þess að skilja. Sumt þarfnast þó engra útskýringa, fremur en tónverk sem hrífur áheyrendur með sér í krafti tónlistarinnar, og list Guðmundu kveður sannarlega slíkan tón, í fullu jafnvægi á milli hins röklega og hins hjartnæma, hins kvenlega og hins karlmannlega. Þá var Guðmunda Andrésdóttir einstök fyrir margra hluta sakir, bæði sem listakona og sem manneskja, og framlag hennar til íslenskrar listasögu og listasamfélags vegur þungt. Fór hún enda sínar eigin leiðir, jafnt í lífi og leik, en laut ætíð sinni eigin hrynjandi.
Sýningarstjórar eru Unnur Mjöll S. Leifsdóttir og Hólmar Hólm.
Guðmunda Andrésdóttir fæddist í Reykjavík 3. nóvember 1922 og lést 31. ágúst 2002. Hún lauk verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1941 og var áheyrnarnemandi við teiknikennaradeild Konstfack-skólans í Stokkhólmi 1947-48, auk þess að stunda nám við málaraskóla Otte Sköld. Síðar stundaði hún nám í myndlist í París við L’Académie de la Grande Chaumière og L’Académie Ranson 1951-53. Guðmunda er einn helsti fulltrúi íslenskrar abstraktlistar og var um árabil meðal félaga í Septem-hópnum, ein kvenna. Hún hélt ýmsar einkasýningar á ferlinum, þar á meðal yfirlitssýningu á Kjarvalsstöðum árið 1990, og tók þátt í fjölmörgum samsýningum hér á landi og erlendis. Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Listasafn Háskóla Íslands, Listasafn ASÍ, Gerðarsafn og Colby Art Museum í Maine í Bandaríkjunum eiga öll verk eftir Guðmundu, sem og einkasafnarar víða um heim.
[1] Einar Falur Ingólfsson, „Þetta er að verða kvennastarf“, Morgunblaðið, 16. nóvember 1996.