Hikandi lína

Elísabet Brynhildardóttir

Teikningin er fyrsta sjónræna viðbragð okkar við heiminum löngu áður en við lærum að skrifa og virkar hún sem eins konar vörpun ímyndunarafls og hugsana í efni. Fáir miðlar myndlistarinnar komast eins nálægt hrárri sýn listamannsins eins og teikningin – hún er beintenging við hugsunina og varpar jafnframt ljósi á afar náið samband manns og verkfæris. Á sýningunni skoðar Elísabet Brynhildardóttir tímann, tilfinninguna og skynjunina að baki teikningunni og þeirri aðgerð að teikna, eða eins og listamaðurinn Richard Serra sagði eitt sinn: „Þú býrð ekki til teikningu – þú teiknar.“

Elísabet Brynhildardóttir (f. 1983) vinnur með fjölbreytta miðla, þótt teikning og skúlptúr séu þar mest áberandi. Í verkum sínum skoðar hún samband okkar við efnisheiminn og þolmörk þess, ásamt því að velta fyrir sér hugmyndum um tíma og hverfulleika. Þá hefur hún tekið þátt í fjölbreyttum sýningum og öðru myndlistartengdu starfi og hafa verk hennar meðal annars verið sýnd í i8 Gallery, Listasafninu á Akureyri, Kling & Bang, Skaftfell og Nýlistasafninu. Elísabet útskrifaðist með BA-gráðu í myndlist árið 2007 frá The University College for the Creative Arts í Bretlandi.