Hafnarborg 35/30

Afmælissýning

Í ár á Hafnarborg tvöfalt afmæli en nú eru 35 ár liðin frá því að hjónin í Hafnarfjarðar Apóteki, Sverrir Magnússon og Ingibjörg Sigurjónsdóttir, færðu Hafnarfjarðarbæ húsnæði sitt að Strandgötu 34 að gjöf, ásamt listaverkasafni sínu. Fimm árum síðar var Hafnarborg formlega vígð þann 21. maí 1988.

Laugardaginn 2. júní kl. 15 verður opnuð sýning í tilefni þessa. Þar getur að líta valin verk úr safneign Hafnarborgar. Bæði verk sem oft hafa verið sýnd áður við ólík tækifæri og verk sem hafa fengið að prýða veggi margra stofnana bæjarins. Á sýningunni eru þó einnig verk sem varla hafa verið hreyfð úr geymslunum síðan þeim var komið þar fyrir. Er þessari sýningu ætlað að endurspegla margbreytileika myndlistarinnar sem er varðveitt hér í Hafnarborg.

Safneign Hafnarborgar hefur á þeim 35 árum sem liðin eru frá stofnun margfaldast að vexti og telur nú tæplega fimmtán hundruð verk. Með tímanum hefur aukist við safneignina bæði með gjöfum og kaupum á listaverkum.

Sýningarstjórar afmælissýningarinnar eru Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, og Unnar Örn Auðarson, myndlistarmaður.