GILDI

40 ára afmælissýnining

Hvert safn endurspeglar gildi þess sem safnar. Á þetta jafnt við um einkasafn eða opinbera stofnun með langa sögu. Safnið endurspeglar það sem skiptir hvern þann máli sem lagði grunn að því – af eigin áhuga og áræðni, af innri þörf eða tilviljun. Þegar safn kemur í hlut samfélagsins má svo segja að það eignist eigið líf en það segir að sama skapi fjöldamargt um það samfélag sem það tilheyrir og vex í takt við. Um tíðaranda og breytilegan smekk fólks, um efnisnotkun og áherslur, um hugmyndir og hugsjónir.

Á sýningunni getur að líta valin verk – sem hafa bæst við safneign Hafnarborgar á þessari öld – eftir Georg Guðna, Guðnýju Rósu Ingimarsdóttur, Harald Jónsson, Hildigunni Birgisdóttur, Ingólf Arnarsson, Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur, Philipp Valenta, Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur og Unu Björg Magnúsdóttur.

Sýningarstjóri er Hólmar Hólm.