Fylling

Una Björg Magnúsdóttir

Sýningarrými Hafnarborgar eru byggð utan um reisulegt hús sem staðið hefur við Strandgötu 34 síðan 1921, þá heimili og apótek. Aðalsalur Hafnarborgar ber þess merki þar sem bogadregin framhlið eldra hússins er áberandi kennileiti salarins. Eitt af aðalverkum sýningarinnar leikur sama leik – lágreist skilrúm teygir sig um rýmið, mótar sig eftir salnum en stikar þó nýtt rými innan þess – tómarými, nýtt svið, mögulegan leikvang.
Önnur verk eru líka unnin sérstaklega fyrir sýninguna: skúlptúrar, myndverk og pappírsverk, verk sem búa til fínlega frásögn sem reiðir sig á eiginleika rýmisins, efni þess og birtu, möguleikum og takmörkunum. Verkin tvinna saman tímalínur byggingarinnar, sögulegar og skáldaðar. Þau velta upp tengslum fyrirmynda og eftirmynda, elta uppi tvífara og skoða báðar hliðar myntarinnar.

Una Björg Magnúsdóttir (f. 1990) beitir ýmsum aðferðum í verkum sínum til að velta upp spurningum um fegurð, gildi, tilvist okkar, hegðun og hátterni. Hún notar til þess áferð og gildishlaðin efni á slunginn en sparlegan hátt. Með nákvæmum uppstillingum á fábrotnum munum skapa verkin ákveðið sýndaryfirborð þar sem allt virðist með felldu. En verkin taka á sig háttvísa blekkingu og dansa á óræðum skilum þess raunverulega og eftirlíkingar og ýta þannig við hefðbundnum hugmyndum um merkingu og skynjun.
Una Björg nam myndlist við Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám við ÉCAL í Sviss þaðan sem hún útskrifaðist árið 2018. Hún býr og starfar í Reykjavík. Verk hennar hafa verið sýnd meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Listasafni ASÍ, Gerðarsafni, Y gallerí, Ásmundarsal, KEIV í Aþenu og Künstlerhaus Bethanien í Berlín. Þá var Una Björg tilnefnd sem Myndlistarmaður ársins á Íslensku myndlistarverðlaununum 2025 og hlaut Guðmunduverðlaunin árið 2024.