flæðir að – flæðir frá

Haustsýning Hafnarborgar 2022

Á haustsýningu Hafnarborgar 2022, flæðir að – flæðir frá, er sjónum beint að strandlengjunni, sem er jafnt stórbrotin og uppfull af smáum lífverum, viðkvæmum gróðri og fjölbreyttum steinategundum. Takast þar á hið stóra og ofsafengna, hið smáa og viðkvæma, er öldurnar skella með krafti á ströndinni.

Á sýningunni eru verk eftir sjö listamenn. Mörg þeirra eru alin upp á eyjum og öll eiga þau það sameiginlegt að koma frá löndum þar sem sjórinn er ein af lífæðum samfélagsins, leiðin út í heim og um leið landamæri sem skilja þau frá umheiminum. Þau hafa öll staðið við sjóinn, fundið fyrir vanmætti sínum og krafti.

Á þeim tímum sem við lifum nú, tímum loftslagsbreytinga, má líta á strandlengjuna sem eins konar átakasvæði. Hækkandi hitastig bæði á sjó og landi hefur áhrif á lífríkið, lífverur hverfa og aðrar nema land. Hækkandi sjávarborð hefur áhrif á á hið manngerða umhverfi ekki síður en hið náttúrulega – og mögulega kalla þessar breytingar á að við hugsum þetta tvennt sem hluta af sömu heild og út frá nýjum forsendum.

Í stað þess að draga úr okkur máttinn getur listin gefið okkur kraft til að hugsa nýjar leiðir til að lifa af í breytum heimi. Sýningin flæðir að – flæðir frá hvetur áhorfendur til að hugsa um viðhorf sitt til strandlengjunnar og lífríkisins á nýjan hátt og í nýju samhengi.

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Alda Mohr Eyðunardóttir, Anna Rún Tryggvadóttir, Pétur Thomsen, Stuart Richardson, Studio ThinkingHand (Rhoda Ting og Mikkel Dahlin Bojesen) og Tadashi Ono.

Sigrún Alba Sigurðardóttir hefur á undanförnum árum starfaði sem sýningarstjóri og fræðimaður á Íslandi og í Danmörku. Hún hefur meðal annars unnið fyrir Listasafn Íslands, Listasafn Árnesinga, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Fotografisk Center í Kaupmannahöfn. Nú í haust er hún sýningastjóri sýningarinnar Snowflakes and Other Surprises sem sýnd verður á Landskrona Foto, auk haustsýningar Hafnarborgar. Sigrún Alba hefur skrifað fjölda greina og sent frá sér nokkrar bækur um ljósmyndun, samtímamyndlist og sagnfræði. Nýjasta bók hennar nefnist Snjóflygsur á næturhimni (Mál og menning, 2022) og fjallar um samspil ljósmynda, minninga og veruleika.