Far

Þórdís Jóhannesdóttir og Ralph Hannam

Laugardaginn 18. janúar kl. 15 verður opnuð sýningin Far í Sverrissal Hafnarborgar en um er að ræða sýningu á verkum Þórdísar Jóhannesdóttur (f. 1979) og Ralph Hannam (1915-2011), sem eiga þar í samtali sín á milli.

Þórdís og Ralph koma að ljósmyndun um óhefðbundnar leiðir. Hún er myndlistarmaður sem notar ljósmyndina sem sinn miðil, án þess að leggja áherslu á tæknina. Þægindi stafrænna aðferða gefa henni tækifæri til myndvinnslu sem áður krafðist annars konar handavinnu og tækniþekkingar. Ralph var áhugaljósmyndari og af þeim verkum sem varðveitt eru eftir hann má sjá að hann nálgast ljósmyndun eingöngu sem leið til listrænnar sköpunar. Þau eru því bæði staðsett utan hins hefðbundna heims atvinnuljósmyndarans og hafa allt það frelsi sem þau kjósa sér.

Við undirbúning þessarar sýningar fór Þórdís í gegnum myndasafn sitt og valdi myndir til að para við myndir Ralphs. Samsvörunin á milli verka þeirra er ótrúleg en þau eiga það sameiginlegt að stilla ekki upp fyrir myndatökuna, heldur leita þau að áhugaverðum formum sem þau fanga síðan með myndavélinni. Næmt auga, tilviljun og heppni stjórna útkomunni. Skurður myndanna er einnig mikilvægur í verkum þeirra beggja: þau þrengja sjónarhornið og skera burt allan óþarfa.

Snertiflötur þessara tveggja listamanna birtist án átaka. Samspil verkanna er sannfærandi og óþvingað. Formið er viðfangsefni þeirra beggja. Lýsingin, myndbyggingin og jafnvægið skiptir mun meira máli en myndefnið sjálft. Það sjónræna samtal sem fram fer á sýningunni á uppruna sinn í umhverfinu – hversdagsleikanum – og minnir okkur á að fegurðin getur búið víða.

Sýningin er unnin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands og er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.

     


Leiðsögn um sýninguna