Fangelsi

Olga Bergmann og Anna Hallin

Innan veggja fangelsisins ríkir hefðbundið ögunarsamfélag þar sem hið alsjáandi auga eftirlitskerfisins gerir það að verkum að sá sem er undir eftirliti tekur sjálfviljugur á sig þvinganir valdsins. Bæði fangaverðir og eftirlitsmyndavélar fullvissa hann um að hver hreyfing hans og hver athöfn sé undir eftirliti. Það eina sem fanginn á út af fyrir sig eru hugsanir hans sjálfs og tilfinningar.

Utan veggja fangelsisins, þar sem eftirlitskapítalisminn ræður ríkjum, eru hins vegar ekki nein skýr mörk á milli hugsunar og athafna. Í gegnum samfélagsmiðla og leitarforrit, skrásetningu og dulið eftirlit er fylgst með bæði hugsun, tilfinningum og athöfnum einstaklingsins. Þar er enginn skýr greinarmunur á milli hins innra og hins ytra og vaktmaðurinn hefur ekki síður áhuga á hugsunum einstaklingsins og tilfinningum en líkamlegum athöfnum hans og hreyfingu í rými.

Fangelsið er því orðið afmarkaður staður sem eftirlitskerfi samfélagsmiðla, staðsetningarkerfi og leitarforrit ná ekki til. Þau sem eru utan múra fangelsisins geta ekki teygt sig inn fyrir veggi þess og fylgst með atferli fanganna í gegnum samfélagsmiðla eða leitarforrit. Í fangelsinu eru hvorki skrifaðir statusar né boðið upp á læk. Eftirlitið, líkt og íbúarnir sjálfir, er bundið við rýmið sjálft.

Anna Hallin og Olga Bergmann hafa mótað ólíka farvegi með verkum sínum en hafa jafnframt skipst á skoðunum, þróað hugmyndir og fikrað sig áfram í samstarfi sem fætt hefur af sér ný verk og áhrifamiklar sýningar. Saman mynda þær listamannateymið Berghall. Eitt af því sem einkennir verk Berghall öðru fremur er virkt samtal við það umhverfi sem listin er hluti af eða á í samtali við hverju sinni, hvort sem um er að ræða hefðbundið sýningarrými, s.s. listasafn eða gallerí, borgarumhverfi eða náttúru.

Höfundur texta: Sigrún Alba Sigurðardóttir