Farfuglar sem ekki ná að fylgja hringrás lífsins enda sem strandaglópar af leið. Með svipuðum hætti hefur fjöldi fólks lagt land undir fót í leit að betra lífi en mætir þess í stað ógnum náttúru og skriffinsku. Slík ferðalög, jafnt sem ákallið um breytta heimssýn og hluttekningu í síbreytilegum heimi, eru kveikjan að Erindi.
Ljóð, sem túlkuð eru í tónlist Schubert, Grieg, Sibeliusar, Schumann og Fauré, ljá verkum sýningarinnar titla sína. Ljóð þessi voru ort undir áhrifum rómantísku stefnu nítjándu aldar Evrópu, þegar húmanískar hugmyndir fengu byr undir báða vængi. Nóttin og umbreytingakraftur ljósaskiptanna er leiðarstef í ljóðunum en þar er hin mikilfenglega upplifun endurlausnar og endurnýjunar, sem finna má í náttúrunni, fönguð.
Söngur minn kallar ljúft
gegnum rökkrið til þín;
Hér í kyrran lundinn,
ástin, komdu til mín! [1]
Söngvarar tilheyra stórum hópi fugla af Sylviidae-ætt sem kallast Old World Warblers á ensku. Tuttugu og þrjár tegundir þeirra hafa sést á Íslandi og þá má sjá á ljósmyndum í djúpbláum litatónum sem eru andstæðir náttúrulegum brúnum lit fuglanna. Fuglarnir eru aðallega frá Evrasíu og Afríku en þeir fuglar sem hafa fundist hér á landi hafa hrakist hingað af leið.
Þeir eru flækingar, skráðir og vottaðir af Flækingsfuglanefnd en ljósmyndirnar eru teknar af fuglaskoðurum til sönnunar um fundinn. Myndirnar eru innrammaðar í portrettstíl og númeraðar í samræmi við vísindaleg flokkunarkerfi en auk þess kallast hljóðupptökur af fuglasöng á hljómplötu á við myndirnar af fuglunum.
Bara að þú væri þá, ó kvöld, sú töfrabrú
sem fær sál mína til að hefjast til flugs
burt til hugarlandsins, því að ég er hikandi,
og vængur minn ber mig ekki úr fjötrum efnisins! [2]
Tjald úr bláum kalkipappírsörkum hangir úr loftinu í miðju sýningarrýminu. Pappírinn er settur götum sem hleypa birtu í gegn og mynda stjörnukort fyrir norðurhimininn að hausti. Nóttin var vissulega andleg uppspretta fyrir rómantísku skáldin. Þau löðuðust að norðrinu með sínar dimmu vetrarnætur og víðáttumiklu skóga, ekki síst sem andstæðu við „birtu“ upplýsingaaldarinnar og hið sólríka Miðjarðarhafslandslag sem var táknmynd klassísku hugmyndafræðinnar.
Þá eru líkindi með því hvernig flækingsfuglar birtast á Íslandi og hvernig flóttamenn sækja norður á bóginn, til Evrópu. Einnig má finna líkindi með því hvernig þetta streymi er meðhöndlað þar sem skráning fólksins er flokkunarfræðilegs eðlis. Til dæmis má þar nefna evrópska fingrafaragrunninn, Eurodac, líftölfræðilegt skráningarkerfi þar sem umsóknir hælisleitenda eru skráðar.
Það var eins og himinninn hefði
kysst jörðina hljóðlega,
svo að hana gæti í blómskrúði sínu
aðeins dreymt um hann. [3]
Koma söngvaranna er eitt af mörgum dæmum um það hvernig mynstur í vistkerfi okkar eru að breytast. Flækingur þessara smáfugla orsakast af veðrinu en helst sést til þeirra eftir hvassar austanáttir á haustin. Vindarnir eru allt í senn efnislegir, hverfulir, alltumlykjandi og virða engin landamæri. Þegar fuglarnir feykjast af leið á flugi sínu raskast viðkvæm kortlagning þeirra sem meðal annars byggir á stjörnum himinsins og segulsviði jarðar.
Æ! Æ, hve dapurt er að vakna af slíkum draumi!
Ég ákalla þig, nótt, gef mér aftur blekkingu þína;
Komdu aftur, komdu aftur ljómandi,
komdu aftur, dularfulla nótt. [4]
Bláleitt xenon-ljós hangir yfir sýningarborði með fuglshömum algengra söngvarategunda. Xenon, sjaldgæft eðalgas, er á margan hátt nytsamlegt og er til dæmis notað í ljósmyndaflass og leitarljós. Nafnið er dregið af gríska orðinu xenos sem þýðir „framandi“ eða „gestur“. Þannig eru xenon-ljósin bókstaflega til leitar að hinu framandi. Í læknisfræði er gasið enn fremur notað til svæfinga. Hvort heldur lífs eða liðnir liggja fuglarnir hér undir hringlaga xenon-ljósinu, sem gæti allt eins verið tunglskinið.
[1] Ständchen/Mansöngur, D.957 – Schubert, 1828. Ljóð eftir Ludwig Rellstab. Ísl. þýð.: Helga Soffía Einarsdóttir.
[2] Illalle/Til kvöldsins, Op.17 – Sibelius, 1898. Ljóð eftir Aukusti Valdemar Forsman. Ísl. þýð.: Reynir Axelsson.
[3] Mondnacht/Tunglskinsnótt, Op. 39 – Schumann, 1840. Ljóð eftir Joseph Eichendorff. Ísl. þýð.: Reynir Axelsson.
[4] Après un rêve/Eftir draum, Op. 7 – Fauré, 1878. Ljóð eftir Romain Bussine og óþekkt ítalskt skáld. Ísl. þýð.: Reynir Axelsson.
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir nam myndlist við Manchester Metropolitan University, Guildhall University í London og Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga víða um heim og þess utan stofnað og ritstýrt myndlistartímaritinu Sjónauka.
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir hlaut tilnefningu sem myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna á Íslensku myndlistarverðlaununum 2018.