Á sýningunni leiðir Þórir Gunnarsson, sem gengur einnig undir listamannsnafninu Listapúkinn, okkur inn í myndheim sem er jafnt persónulegur og býr yfir mikilli leikgleði. Þórir sækir innblástur hvaðanæva úr nærumhverfi sínu – svo sem úr strætó- og hlaupaferðum eða náttúrunni – en Þórir hefur óþrjótandi áhuga á mannlífi og íþróttum, bæði sem ötull stuðningsmaður og iðkandi þar sem hann hefur meðal annars tekið þátt í maraþonhlaupum.
Í verkum Þóris má greina eldmóð og lífsneista sem sprettur af vinnusemi og mikilli sköpunarþörf. Þá vinnur hann einkum með teikningu og vatnsliti, þar sem hann nálgast miðlana af forvitni og innsæi. Teikningar sem verða til á ferðalögum hans í strætó verða jafnframt uppspretta verka sem fanga senur úr daglegu lífi og hið síbreytilega augnablik. Í þessum verkum sameinast rannsókn og upplifun, þar sem lag eftir lag af efni og hugmyndum skapar nýjan veruleika.
Þórir starfar hjá Listvinnzlunni sem listamaður, ráðgjafi og aðstoðarkennari og hefur lagt áherslu á að auka aðgengi fatlaðs fólks að menningu og listnámi. Fyrir það frumkvöðlastarf hlaut hann Múrbrjót Þroskahjálpar árið 2021. Hann hefur einnig verið útnefndur bæjarlistamaður Mosfellsbæjar og sýnt verk sín víða, meðal annars í Norræna húsinu, Gerðarsafni og í Listasafni Reykjavíkur.
Auk þess að vera myndlistarmaður er Þórir menningarfrömuður og tónlistarunnandi sem nýtur þess að kynnast fólki og vera í skapandi samfélagi. Með sýningunni býður hann áhorfendum að finna kraftinn sem knýr hann áfram – lífsgleðina, hreyfinguna, sköpunina og samtalið við aðra – líkt og neisti sem lýstur niður og kveikir nýjar hugmyndir.
Sýningin er sett upp í samstarfi við List án landamæra en Þórir Gunnarsson er listamanneskja hátíðarinnar 2025.