Dáið er allt án drauma

Sara Gunnarsdóttir og Una Lorenzen

Teikningin er útgangspunktur sýningar þeirra Söru Gunnarsdóttur og Unu Lorenzen, Dáið er allt án drauma. Titillinn er vitaskuld fengin að láni frá nóbelskáldinu og vísar í heim ímyndunaraflsins sem listamaðurinn býr yfir og sækir innblástur sinn í.

Hreyfimyndagerð byggir á teikningu sem þróast. Áhorfandinn skynjar hreyfingu á myndfletinum og sér að eitthvað á sér stað, atburðarrás eða umbreyting“.. Áhorfandinn horfir inn í annan heim sem á sér sinn eigin tíma, upphaf og endi. Á sýningunni vinna þær Sara og Una út frá hreyfimyndinni sem þær fást við dags daglega og horfa til teikningarinnar sem uppsprettu og útgangspunkts.

Í útsaumsverkunum færir Sara teikninguna yfir í annan miðil, frá penna á blaði yfir í þræði á textíl. Á móti þræðinum sem er notaður til að móta viðfangsefnið, annars vegar með því að draga upp viðfangsefnið línulega og hins vegar með því að mynda litaklasa, þá notar Sara akrílmálningu á malerískan og expressífan hátt, einkum í bakgrunn verkanna.

Sara miðlar tilfinningum í gegnum teikningar, segir sögur og glæðir drauma lífi. Útsaumsverk og skissur hennar búa yfir ljóðrænu – veröld sem hefur verið fönguð í eitt frosið augnablik. Í verkunum leikur náttúran stórt hlutverk. Bæði jörðin, með náttúru Íslands sem innblástur en kannski ekki síður náttúra mannsins.

Una vinnur aftur á móti með gagnsæi teikningarinnar þar sem hver hreyfimynd verður til á einu stóru blaði. Teikningunni er smám saman breytt með því að þurrka út, nudda og bæta við og er ljósmynd tekin af hverri breytingu. Áhorfendur sjá myndina lifna við jafnóðum og hún er sköpuð. Myndirnar eru unnar með kolum og lituðum þurr-pastel sem ljá myndheiminum efnismikla áferð og dýpt. Sjá má vott af eldri teikningu í gegnum þá sem næst kemur, þar sem hver er teiknuð ofan í aðra. Eftir hverja hreyfimynd stendur loks eftir ein stór teikning sem hefur gengið í gegnum stöðuga breytingu.

Hreyfimyndasería Unu kallast Lygasögur en í hverri örmynd vinnur Una með venjuleg augnablik í lífi fólks: kaffisopa á sunnudegi eða faðmlag vina. Hversdagsleg augnablik sem síðan umbreytast eða leysast upp í abstrakt eða óhlutbundin myndheim og eru uppfull af bæði trega og húmor.

Sýning Söru og Unu fjallar um það sem gerist handan raunveruleikans. Listakonurnar skapa heima í kringum valin augnablik eða hugmynd og leika sér leika sér með abstrakt og stundum súrrealískar umbreytingar eða afmyndanir.  Þá vakna draumar til lífsins í verkum þeirra beggja en líf án drauma er æði lítilfjörlegt, eins og skáldið segir í síðasta erindi ljóðsins:

 

Það er sælt að sofna,
og svífa í draumlönd inn.
Dáið er alt án drauma
og dapur heimurinn.

 

Sara Gunnarsdóttir útskrifaðist frá Cal Arts vorið 2012 með heimildar-stuttmyndinni The Pirate of Love sem var tilnefnd til Student Academy Awards.  Sara starfar sem sjálfstæður animator og leikstjóri. Verkefni hennar hafa verið sýnd á hátíðum á borð við Berlinalen, Sundance, Tribeca Film Festival, Stockfish Film Festival, RIFF, Nordisk Panorama og fleirum.

Una Lorenzen hefur á undanförnum árum unnið að og leikstýrt verðlaunuðum heimildarmyndum, komið að hugmyndaþróun, hönnun og hreyfimyndagerð. Hún notar blandaða tækni við gerð tónlistarmyndbanda og kvikmynda sem hafa ferðast á hátíðir á borð við SXSW, MOMA (NYC), Fantasia (Montreal), Tricky Women (Vín), Nordisk Panorama (Svíþjóð) og online hjá Artforum. Una útskrifaðist úr grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands árið 2004 og lauk mastersgráðu í tilraunakenndri hreyfimyndagerð í California Institude of the Arts (CalArts) árið 2009.

Hljómyndir við hreyfimyndir Unu Lorenzen eru eftir:
Darra Lorenzen,
Indriða Ingólfsson og
Julie Madson.