Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs

Davíð Brynjar Franzson

Sýning Davíðs Brynjars Franzsonar, Borgarhljóðvist í formi ensks lystigarðs (e. An Urban Archive as an English Garden), beinir athygli okkar að þætti borgarhljóðvistar í upplifun okkar af stað og tíma. Borgarhljóðvist er heiti yfir þann hljóðheim sem borgir móta með formi sínu, lögun og virkni. Mannlíf, arkitektúr, fána og náttúrulegir staðhættir, líkt og veðurfar og landslag, skapa hverri borg sinn sérstaka hljóm, sem er jafnt breytilegur innan borgarrýmisins og eftir dögum eða tíma dags.

Hljóðritanir frá ólíkum tímum dags, úr nánasta umhverfi hóps alþjóðlegra listamanna, hafa verið útfærðar af Davíð yfir í þrívítt hljóðumhverfi sýningarinnar í anda hugmyndafræði enska lystigarðsins á 18. öld. Útgangspunkturinn er að skapa gestum dvalarstað til að skoða og upplifa, þar sem landslaginu er ætlað að vekja forvitni og umfaðma gesti sína, í stað þess að vera skorðað í kortlagt heildarskipulag. Hljómi borganna er att saman við hljóðfæraleik flytjenda, sem ferðast hægfara um rýmið, bregst við og dregur fram litbrigði og augnablik í hljóðvistinni, lystigarði hljóðs, sem gestir geta kannað á eigin forsendum jafnt í tíma og rúmi.

Sýningin er sett upp innan tónleikaraðar Hafnarborgar, Hljóðana, sem tileinkuð er samtímatónlist, en á síðari árum hefur safnið þanið form raðarinnar – og tónlistarinnar – til hins ýtrasta. Á sýningartímabilinu verða einnig haldnir viðburðir þar sem samstarfsaðilar Davíðs koma fram og virkja sýninguna með hljóðfæraleik. Samstarfsaðilar hans eru Halla Steinunn Stefánsdóttir, fiðluleikari, búsett í Malmö, Júlía Mogensen, sellóleikari, búsett í Reykjavík, Matt Barbier, básúnuleikari, búsettur í Los Angeles, og Russell Greenberg, slagverksleikari, búsettur í New York.

Sýningarstjóri er Þráinn Hjálmarsson.

Sýningin nýtur stuðnings Myndlistarsjóðs, Tónlistarsjóðs og Tónskáldasjóðs RÚV og STEFs.
Verkefnið var að hluta þróað við IRCAM og ZKM.


Stikla