Bókstaflega

Konkretljóð á Íslandi frá 1957 til samtímans

Hugmyndin um notkun bókstafa á myndrænan hátt hefur þróast á löngum tíma og á sér rætur að rekja allt aftur til myndleturs Forn-Egypta. Með tilkomu framúrstefnuhreyfinganna í upphafi tuttugustu aldar varð veruleg breyting í notkun listamanna á letri. Þar fóru fremstir ítölsku fútúristarnir, rússnesku konstrúktífistarnir og dadaistar í Þýskalandi, Sviss og Frakklandi. Listamennirnir höfnuðu hefðbundnu formi skáldskapar og vildu finna nýjar leiðir til að skapa ljóðlist út frá leturgerð og umbroti. Í Stefnuyfirlýsingu Dadaismans segir Hugo Ball í grein sinni „Opnunaryfirlýsing“ (Fyrsta dadakvöldið í Zurig, 14. Júlí 1916):

Ég les ljóð sem ætlað er hvorki meira né minna en: að hafna tungumálinu. Ég vil ekki sjá orð sem aðrir hafa fundið upp. Ég vil mína eigin fásinnu og sérhljóða og samhljóða sem henni hæfa. Ljóðið er tækifæri til að komast sem best af án orða og án tungumálsins.

Tveimur árum áður en stefnuyfirlýsing dadaismans var skrifuð var franska ljóðskáldið Guillaume Apollinaire (1880-1918) að gera tilraunir til að leysa ljóðið úr viðjum hefðbundins forms og orti ljóð sem voru sett upp eins og myndir. Sjálfur kallaði hann þessi ljóð „kalligrömm“ en þekktast þeirra er án efa ljóðið „Il pleut“ eða „það rignir“ frá árinu 1914, þar sem ljóðlínurnar renna niður síðurnar eins og regndropar á rúðu. Ljóðið birtist í ljóðabókinni Calligrammes árið 1918, bókin telst til grundvallarrita 20. aldar konkretljóðlistar enda hefur Apollinaire verið kallaður faðir konkretljóða.

Segja má að tilraunir framúrstefnulistamanna með notkun tungumálsins hafi fyrst gefið konkretljóðum einhvern sess í listasögunni. Það var þó ekki fyrr en á sjötta áratug síðustu aldar sem hún fór raunverulega að segja til sín. Á árunum 1951-1955 komu fram ljóðskáld í að minnsta kosti fjórtán löndum og tveimur heimsálfum sem skrifuðu öll undir merkjum konkretljóðlistarinnar. Sú nýjung í ljóðagerð, sem tilheyrir hinni svokölluðu nýframúrstefnu, fékk nafnbótina konkretljóðlist árið 1953 og sást fyrst í stefnuyfirlýsingu sænska listamannsins Öyvind Fahlström (1928-1976); „Hätila ragulpr på fåtskliaben“ í Odyssé árið 1954.

Árið 1951 stofnaði einn helsti kennismiður konkretljóðlistarinnar, svissnesk-bólivíska skáldið Eugen Gomringer (f. 1925), tímaritið Spirale í borginni Bern í Sviss ásamt Dieter Roth (1930-1998) og Marcel Wyss (f. 1930). Tímaritinu var ætlað að breiða út nýstárlegar hugmyndir í ljóðagerð. Árið 1953 kom svo út fyrsta konkretljóðabókin sem um getur en það var ljóðabókin Konstellationen eftir Gomringer. Um miðjan sjötta áratuginn fóru konkretljóð að skjóta upp kollinum á Íslandi sem má þakka fluttningi þýsk-svissneska listamannsins Dieter Roth til landins árið 1957. Ásamt konkretljóðinu flutti Dieter með sér nýja alþjóðlega strauma í myndlist, t.a.m. hugmyndafræði alþjóðlegu nýframúrstefnuhreyfingarinnar Flúxus sem einkenndist af tilraunamennsku, samruna ýmissa listgreina í þverfaglegri listsköpun. Með tilkomu Flúxus var skilgreiningin á ljóðahugtakinu tekin enn lengra sem hafði mikil áhrif á þróun konkretljóðagerðar næstu áratugina.

Í upphafi áttunda áratugarins áttu sér stað breytingar í erlendu og íslensku lista- og menningarlífi þegar ný kynslóð listamanna hóf innreið sína með verk sem byggð voru á hugmyndalistinni (e. conceptual art). Í hugmyndalistinni öðlaðist tungumálið aukið vægi og byggðu verkin oft á textum, ljósmyndum og vídeói, auk gjörninga og innsetninga. Verk íslensku hugmyndalistamannanna sem kenndir eru við SÚM byggðu að miklu leyti á leik með tungumálið, oft með írónískum skilaboðum og vísunum í íslenskar þjóð- og fornsögur. Segja má að með tilkomu SÚM-kynslóðarinnar hafi konkretljóðaforminu fyrst verið beitt fyrir alvöru hérlendis. Það var svo ekki fyrr en í upphafi 9. áratugarins sem skáld á borð við Ísak Harðarson og Gyrði Elíasson sendu frá sér ljóðabækur sem voru undir áhrifum konkretismans.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrstu konkretljóðin tóku að birtast í upphafi sjötta áratugarins og eins og sýningin gefur til kynna hefur sá straumur í ljóðagerð runnið í ótal marga farvegi. En konkretljóðið fæddist í þeim tilgangi að segja eitthvað um heiminn sem er NÚNA og fá áhorfendur til að hugsa á annan hátt; handan við orðin. Í því ljósi er áhugavert að skoða hvernig listamenn og rithöfundar samtímans hafa kannað þanþol konkretljóðaformsins í gegnum breytta tækni og nýja sýn á framtíðina.

Sýningarstjóri er Vigdís Rún Jónsdóttir.