Á sjötta áratug síðustu aldar voru miklir umbrotatímar í íslenskri myndlist. Geómetríska abstraktlistin var að nema land og hingað bárust sterkir straumar nýjunga. Eiríkur Smith, myndlistarmaður, var við nám í Kaupmannahöfn og París og var virkur þátttakandi í þeirri formbyltingu sem þá átti sér stað. Hann kom heim árið 1951 og í kjölfarið hélt hann einkasýningu í á óhlutbundnum verkum í Listamannaskálanum við Austurvöll, auk þess að taka þátt í tímamótasýningu í Listamannaskálanum árið 1953.
Málverk, blek- og gvassmyndir Eiríks frá þessum árum bera með sér rökhugsun og góð tök á þeirri einföldun myndmálsins sem strangflatahugsunin krafðist, án þess að fylgja fyrir fram gefnum reglum í blindni. Árið 1957 gerði Eiríkur svo endanlega upp hug sinn gagnvart strangflatalistinni og brenndi hluta þeirra verka sinna, ásamt eldri verkum, í malargryfju í Hafnarfirði. Verk eftir Eirík frá þessum tíma eru því vandfundin en þau sem til eru bera þess merki að Eiríkur hafði góð tök á myndgerð strangflatalistarinnar, þó að hann kysi sjálfur að fara aðra leið síðar. Á sýningunni Án titils mjá sjá mörg áður ósýnd gvassverk, auk verka úr safneign Hafnarborgar, frá þessu knappa en frjóa tímabili á ferli listamannsins.
Eiríkur Smith var fæddur í Hafnarfirði árið 1925 og lést í heimabænum árið 2016. Eiríkur stundaði nám við Málara- og teikniskóla Finns Jónssonar og Jóhanns Briem veturinn 1939-1940 og við Handíða- og myndlistarskólann árin 1946-1948. Því næst hélt hann til Kaupmannahafnar í nám og árið 1951 hélt hann til Parísar, þar sem hann nam myndlist við Académie de la Grande Chaumiére. Hann hélt fjölda einkasýninga, auk þess að taka þátt í samsýningum víða um heim á löngum ferli sínum. Verk eftir Eirík er að finna í söfnum víðs vegar, svo sem í safneign Listasafns Íslands, Gerðarsafns og Listasafns Reykjavíkur en auk þess varðveitir Hafnarborg um 400 verk eftir listamanninn.