Allt eitthvað sögulegt

Bára Kristinsdóttir

Hver hlutur á sér sögu. Skrúfan, snaginn, slitinn stóll – allt á sér sögu… Hlutir sem við höfum í kringum okkur en veitum sjaldnast eftirtekt, snaginn sem við hengjum úlpuna á, álgjarðir fyrir ruslapokana. Við sjáum þá varla, samt hafa þeir hlutverk, þeir skipta máli. Og einhver hefur smíðað þessa hluti, lagt alúð og vinnu í þá. Sá sem smíðar þá skiptir máli, hann á sér sögu. Og einhver verður að segja sögu þess sem smíðar hlutina. Því allt verður að leita jafnvægis…

Bára Kristinsdóttir bregður upp næmri og heillandi mynd af heimi sem er að hverfa. Ljósmyndir hennar gefa innsýn í líf tveggja eldri manna á nælonhúðunarverkstæði í útjaðri Reykjavíkur þar sem tíminn hefur staðið í stað. Á árum áður var þetta fjölmennur vinnustaður þar sem reksturinn blómstraði og unnið var handvirkt upp á gamla mátann. En með nútímatækni kom að því að handbragð þeirra var ekki lengur eftirsótt og fyrirtækið laut í lægra haldi fyrir kínverskri verksmiðjuframleiðslu sem yfirtekið hefur markaðinn.

Bára lærði ljósmyndun í Gautaborg. Hún hefur sýnt á einkasýningum og tekið þátt í fjölda samsýninga bæði á Íslandi og erlendis. Má hér nefna einkasýningarnar Heitir reitir í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og Umhverfi bróður míns sem sýnd var í Gallerí Anima og tekið þátt í samsýningum í Scandinavia House í New York og Frankfurter Kunstverein. Bára hefur einnig unnið sem auglýsinga- og fréttaljósmyndari í gegnum tíðina og myndar meðal annars reglulega fyrir The New York Times. Hún er stofnfélagi Félags íslenskra samtímaljósmyndara, FÍSL. Þá stofnaði Bára og hefur rekið Ramskram, sem er sýningarrými fyrir samtímaljósmyndun, síðustu tvö árin.