Allra veðra von

Haustsýning Hafnarborgar 2018

Haustsýning Hafnarborgar að þessu sinni fjallar um samband mannsins við veður. Eftir eitt versta sumar í manna minnum á suðvesturhorni landsins og öfga í veðri um heim allan er þetta viðfangsefni ofarlega í hugum manna. Veðrið hefur áhrif á okkur, umhverfi okkar og andlega líðan, og nú á tímum hnattrænnar hlýnunar og breytinga á veðurkerfum heimsins er það þungur biti að kyngja að við sjálf berum ábyrgð á því að miklu leyti.

Listakonurnar nálgast viðfangsefnið hver með sínum hætti og sækja föng í þjóðfræðilegar og mannfræðilegar heimildir, fornar sagnir, loftslagsvísindi, upplifanir og atburði líðandi stundar, þar sem kjarninn er alltaf manneskjan frammi fyrir veðri. Sýningarskrá með greinum eftir fræðifólk og viðtöl við þátttakendur sýningarinnar verður fáanleg í safnbúð Hafnarborgar.

Þátttakendur í sýningunni starfa undir merkjum myndlistarhópsins IYFAC sem hefur áður unnið að tveimur sýningum. Listamennirnir eru Halla Birgisdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Ragnheiður Maísól Sturludóttir, Sigrún Hlín Sigurðardóttir og Steinunn Lilja Emilsdóttir.

Marta Sigríður Pétursdóttir, sýningarstjóri, útskrifaðist með BA gráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2008, MA gráðu í menningarfræði frá Goldsmiths College í London 2011 og MA í kynjafræði frá School of Oriental and African Studies í London 2014. Hún hefur fengist við margvísleg skrif tengd myndlist, bókmenntum, kvikmyndum og menningu.

Á hverju ári kallar Hafnarborg eftir tillögum að haustsýningu safnsins með það að markmiði að velja til samstarfs sýningarstjóra, sem leggur fram áhugaverða tillögu að sýningu, en jafnframt að kalla til leiks nýtt fólk. Þannig er sérstaklega hugað að því að veita tækifæri sýningarstjórum með stuttan feril að baki. Það er Listráð Hafnarborgar ásamt forstöðumanni sem fer yfir umsóknir og velur vinningstillöguna ár hvert.

Með haustsýningaröðinni vill Hafnarborg skapa farveg fyrir áhugaverðar hugmyndir, með það að sjónarmiði að safnið sé vettvangur þar sem myndlist fái notið sín, mótuð af fjölbreyttum viðhorfum og viðfangsefnum. Sýningarnar og málþing sem skipulögð hafa verið samhliða þeim hafa skapað markverðan vettvang umræðna og þróunar í Hafnarborg.