Á gráu svæði

David Taylor

Laugardaginn 7. mars kl. 15 verður opnuð í Hafnarborg sýning á nýjum verkum skoska hönnuðarins David Taylor. Sýningin ber yfirskriftina Á gráu svæði.

David Taylor hefur vakið athygli víða um heim fyrir einstaka og framsækna hönnun. Á gráu svæði er hans fyrsta sýning hér á landi. Sýningin samanstendur af hversdagslegum hlutum eins og lömpum, klukkum og speglum sem að allir bera með sér sterk skúlptúrísk einkenni og eru oft á tíðum unnin úr óhefðbundnum efnivið. Breið efnistökin mæta sérfræðikunnáttu hans í málmsmíðum sem hann nálgast á afslappaðan hátt. David vinnur á gráu svæði, hann er hönnuður sem vinnur í nágrenni myndlistar eða það sem hann kallar contemporary craft sem á íslensku myndi þýðast sem samtíma handverk.  Verkin eru öll ný og sérstaklega unnin fyrir sýninguna sem er hluti af HönnunarMars og er sett upp í samstarfi við hönnunarverslunina S/K/E/K/K.

David Taylor
(f.1966) er skoskur hönnuður búsettur í Svíðþjóð. Hann útskrifaðist árið árið 1999 með meistaragráðu í silfursmíði frá Konstfack, helsta hönnunarskóla Svíþjóðar. David hefur sýnt í  söfnum og galleríum víða erlendis. Hann hefur fengið fjölda viðurkenninga og verðlaun fyrir verk sín og ber þar hæst að nefna hin virtu Red Dot verðlaun sem hann hlaut árin 2003 og 2006, Marianne & Sivgard Bernadottes Art Award og Elle Interior Design Award. David hefur ýmist hannað verk fyrir opinber rými, gert verk til fjöldaframleiðslu og í takmörkuðu upplagi.