Vísað í náttúru – sýningarstjóraspjall

Sunnudaginn 4. desember kl. 15 býður Hafnarborg gesti velkomna á sýningarstjóraspjall um safneignarsýninguna Vísað í náttúru sem nú stendur yfir í safninu. Þá mun Hólmar Hólm, sýningarstjóri, segja frá verkunum sem þar eru til sýnis og þeim hugmyndum sem liggja til grundvallar sýningunni.

Í safneign Hafnarborgar má finna fjölda verka sem vísa ýmist til eða í náttúruna en á sýningunni getur að líta úrval slíkra verka, með áherslu á áferðarmikil verk, lífræn form og aflíðandi línur. Sýnd eru jafnt tvívíð sem þrívíð verk – lágmyndir sem ljósmyndir, málverk, textíl- og leirlistaverk. Þá má segja að verkin varpi hvert um sig ljósi á náttúruna í meðförum hinna ólíku myndlistarmanna – en uppruni listsköpunar er oft sagður vera tilraun mannsins til að líkja eftir náttúrunni.

Sýnd eru verk eftir listamennina Auði Vésteinsdóttur, Daniel Reuter, Eddu Jónsdóttur, Eirík Smith, Hallgerði Hallgrímsdóttur, Guðjón Ketilsson, Guðmund Thoroddsen, Guðnýju Magnúsdóttur, Gurli Elbækgaard, Jónu Guðvarðardóttur, Jónínu Guðnadóttur, Koggu, Margréti Sveinsdóttur, Nínu Óskarsdóttur og Stefán Jónsson.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.