Tríó Halla Guðmunds – Tangó fyrir einn

Á Safnanótt, föstudaginn 2. febrúar kl. 18 bjóðum við ykkur velkomin á fyrstu Síðdegistóna ársins í Hafnarborg en þá kemur fram tríó kontrabassaleikarans Haraldar Ægis Guðmundssonar. Á efniskránni verður ný tónlist eftir Harald Ægi sem gaf nýlega út plötuna Tango for One.

Tríó Halla sem hann kallar „Limp Kid Dances Tango“ skipa auk Haraldar, eða Halla Guðmunds, þeir Matthías Hemstock á trommur og slagverk og Andrés Þór á gítar. Tónlistin er latínskotin en platan hefur hlotið mjög góðar viðtökur frá útgáfu.

Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.

Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ, Tónlistarsjóði Rannís og Menningarsjóði FÍH.