Töfrasmiðja – prent

Libia Castro & Ólafur Ólafsson og Töfrateymið

Verið hjartanlega velkomin næstkomandi laugardag, 1. maí, milli kl. 12 og 17 í Töfrasmiðju Libiu Castro & Ólafs Ólafssonar og Töfrateymisins í Hafnarborg en sýning þeirra Töfrafundur – áratug síðar stendur nú yfir í aðalsal safnsins.

Það eru Samtök kvenna um Nýja stjórnarskrá, Stjórnarskrárfélagið, Töfrateymið, Loftslagshópur Landverndar (grasrót) o.fl. sem koma saman þennan dag ásamt listamönnunum og standa að viðburðinum sem er jafnframt upphafið að herferðinni #laugardagarfyrirnýjastjórnarskrá.

Myndlistarkonan og silkiþrykks-sérfræðingurinn María Pétursdóttir hefur lánað prentgræjurnar sínar og verður listamönnunum og öðrum gestum innan handar við prentunina en gestum er velkomið að taka með sér uppáhaldssparidressið sitt eða hvern annan fatnað til að prenta á.

Öllum er velkomið að taka þátt í samtali, skipulagningu, dansi, graffi, gjörningi og prenta!

Viðburðurinn og prentsmiðjan fer fram í Sverrissal, á jarðhæð Hafnarborgar.