Laugardaginn 4. október kl. 13 mun Hólmar Hólm, einn sýningarstjóra, leiða gesti um sýninguna Þú ert hér, þar sem getur að líta valin verk úr listaverkasafni Uppsala, eins af vinabæjum Hafnarfjarðar. Þá verður boðið upp á kanilsnúða og kaffi í tilefni hins sænska kanilsnúðadags (sæ. kanelbullens dag) sem er einmitt haldinn 4. október ár hvert. Jafnframt vekjum við athygli á því að um er að ræða síðustu sýningarhelgi.
Sýningin tekst á við spurningar um það að tilheyra stað og samfélagi – hvað er hér, hvað er heima, hvað er nærumhverfi eða -samfélag? Hvað þýðir það að koma sér fyrir, mynda tengsl og skynja sig sem hluta af heild?
Þar kynnumst við lífinu á norðurslóðum í gegnum augu fjölbreytts hóps átján listamanna sem kunna að minna okkur á eigin aðstæður – loftslagið og kuldann, viðhorf og gildismat, auk sameiginlegs menningararfs. Sýningin hvetur okkur þannig til að velta fyrir okkur því sem er líkt og ólíkt hér og þar, er við ferðumst í huganum til Uppsala.
Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Anastasia Savinova, Anders Sunna, Anton Wiraeus, Aron Landahl, Britta Marakatt-Labba, Ebba Stålhandske & Gudrun Westerlund, Ellen Ehk Åkesson, Finn Öhlund, Ikram Abdulkadir, Katarina Sundqvist Zohari, Lina Eriksson, Lisa Wallert, Meta Isaeus-Berlin, Olof Hellström, Sara-Vide Ericson, Stina Wollter and Ulla Fries. Sýningarnefnd: Aldís Arnadóttir, Hólmar Hólm, Mikaela Granath og Tove Otterclou. Verkefnið er styrkt af safnasjóði.
Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.