Þjóðhátíðar­dagurinn 2022 – skemmtidagskrá í Hafnarborg

Hafnarborg verður opin eins og venjulega á þjóðhátíðardaginn 17. júní, kl. 12-17, en boðið verður upp á sérstaka skemmtidagskrá yfir daginn, auk þess sem gestir eru boðnir velkomnir á yfirstandandi sýningar safnsins, Í undirdjúpum eigin vitundar, þar sem varpað er ljósi á feril listamannsins Gunnars Arnar Gunnarssonar (1946-2008), og What’s Up, Ave Maria?, þar sem Sigurður Ámundason sýnir ný og nýleg verk.


Dagskrá

Kl. 12
Blöðrulistamaður

Til að hefja hátíðarhöldin mun blöðrulistamaðurinn Jóhannes Hrefnuson Pálsson taka á móti börnum, gestum og gangandi upp úr hádegi með blöðrufígúrum, ormum og öðrum verum, innblásnum af myndheimi Gunnars Arnar Gunnarssonar, í tengslum við yfirlitssýninguna Í undirdjúpum eigin vitundar.

Kl. 14
Sýningarstjóraspjall
Boðið verður upp á sýningarstjóraspjall með Aldísi Arnardóttur, forstöðumanni Hafnarborgar, um yfirlitssýninguna Í undirdjúpum eigin vitundar kl. 14, þar sem hún mun segja frá ævi og starfi Gunnars Arnar Gunnarssonar en á sýningunni má sjá verk sem spanna nærri fjögurra áratuga langan feril listamannsins.

Kl. 12-17
Þjóðbúningasýning

Líkt og fyrri ár mun Annríki halda sérstaka þjóðbúningasýningu í Apótekinu á neðri hæð safnsins, þar sem sýndir verða þjóðbúningar karla og kvenna í gegnum tíðina og leitast við að varpa ljósi á þróun þeirra, auk þess sem lögð verður áhersla á prjónaðan fatnað á 18. og 19. öld, en sýningarnar hafa notið mikilla vinsælda á hverju ári.


Verið öll velkomin – aðgangur ókeypis, líkt og alla daga ársins.