Síðasta sýninarvika sýningarinnar Söngfugla er runninn upp en síðasti dagur sýningarinnar er sunnudagurinn 16. janúar.
Á sýningunni má sjá ný verk eftir Katrínu Elvarsdóttur frá því að hún heimsótti eyna Kúbu. Þar gekk hún um götur Havana með myndavélina að vopni en hún tók sérstaklega eftir því að margir eyjarbúar halda söngfugla í búrum á heimilum sínum. Vekur þessi siður jafnvel upp spurningar um frelsi og frelsisskerðingu en saga eyjarinnar hefur til langs tíma einkennst af höftum og einangrun. Jafnframt má spyrja sig hvort Kúbverjar finni til samkenndar með fuglunum, sem eru ekki frjálsir ferða sinna, frekar en eyjarbúar. Þá ættum við flest að eiga létt með að samsama okkur slíkri innilokunarkennd í dag, enda veldur núverandi ástand heimsins því að mörgum okkar finnst eins og við séum föst í búri, hvar sem við erum stödd á hnettinum.
Sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.
Katrín Elvarsdóttir lauk BFA námi frá Art Institute í Boston árið 1993. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga hérlendis og erlendis, svo sem Leitina að sannleikanum í BERG Contemporary árið 2018, Double Happiness í Gerðarsafni árið 2016, Vanished Summer í Deborah Berke, New York, árið 2014 og Hvergiland í Listasafni Reykjavíkur árið 2010. Þá hafa verk Katrínar verið sýnd á samsýningum víða, þar á meðal á Þöglu vori í Hafnarborg árið 2020. Fjórar bækur hafa áður verið gefnar út með ljósmyndum Katrínar og verður bókin Songbirds, sem kemur út samhliða sýningu hennar í Hafnarborg, sú fimmta. Katrín hefur verið tilnefnd til ýmissa verðlauna eins og EIKON Award árið 2017, Deutsche Börse Photographic Prize árið 2009 og heiðursverðlauna Myndstefs árið 2007.
Listamannsspjall með Katrínu Elvarsdóttur sem hefði átt að fara fram á síðasta sýningardegi fellur niður.