Listasmiðjur í vetrarfríi – vatnslitir og bókamerki

Hafnarborg býður grunnskólabörnum í Hafnarfirði að koma og taka þátt í skemmtilegum og skapandi listasmiðjum á vegum safnsins í vetrarfríi. Smiðjurnar verða hvor með sínu sniðinu, svo velkomið er að taka þátt annan eða báða dagana.

Tilraunir með vatnsliti
Mánudaginn 24. október kl. 13-15
Leyfum okkur að flæða í núinu og prófum okkur áfram með vatnsliti. Viltu hafa stjórn á viðfangsefninu? Eða viltu leyfa litunum að leiða þig áfram og koma þér á óvart? Boðið verður upp á frjálsa vatnslitamálun með tilraunakenndu ívafi, auk þess sem þátttakendur munu prófa önnur efni með vatnslitunum eins og salt, límband og rör. Leiðbeinandi er Elín Anna Þórisdóttir, myndlistarmaður.

Gerum okkar eigin bókamerki
Þriðjudaginn 25. október kl. 13-15
Við notum náttúrulegan efnivið, til dæmis lauf og fleira, til að búa til okkar eigin bókamerki. Við röðum haustlaufum saman, plöstum svo og klippum til. Þá verður einnig í boði að teikna bókamerki sem fer svo í plöstunarvélina. Efni til listsköpunar verður einnig á staðnum, ef gestir vilja teikna eða mála með vatnslitum. Leiðbeinandi er Unnur Mjöll S. Leifsdóttir, fræðslufulltrúi Hafnarborgar.

Smiðjurnar fara fram í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins og geta börn mætt ásamt foreldrum eða forráðamönnum. Eins og venjulega er þátttaka í listasmiðjum gestum að kostnaðarlausu, líkt og aðgangur að sýningum safnsins.