Síðdegistónar – Tríó Unu Stef

Á næstu tónleikum tónleikaraðarinnar Síðdegistóna í Hafnarborg, föstudaginn 27. maí, kemur fram sálar- og djasssöngkonan Una Stef í tríói ásamt þeim Sigmari Þór Matthíassyni á kontrabassa og Andrési Þór á gítar. Boðið verður upp á notalega akústíska stemningu og verður grúvið allsráðandi. Tónleikarnir hefjast kl. 18 og standa yfir í um klukkustund. Aðgangur er ókeypis.

Una Stef, söngkona, hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi frá því hún gaf út sína fyrstu sólóplötu árið 2014. Síðan þá hefur hún unnið með mörgum af helstu tónlistarmönnum landsins og átt fjölmörg lög á vinsældarlistum ljósvakanna með hljómsveit sinni Una Stef & the SP74.

Sigmar Þór Matthíasson, kontrabassaleikari, hefur leikið með mörgum af helstu tónlistarmönnum landsins, sem og á stórum tónlistarhátíðum hér heima og erlendis, auk þess að koma fram í hinum ýmsu tónlistarhúsum. Sigmar hefur samið og útsett verk m.a. fyrir Stórsveit Reykjavíkur og hefur Sigmar hefur gefið út tvær plötur í eigin nafni. Þess má geta að Sigmar hlaut á þessu ári Íslensku tónlistarverðlaunin ásamt hljómsveit sinni sem tónlistarflytjandi ársins í flokki djasstónlistar.

Andrés Þór, gítarleikari, hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi til fjölda ára og hefur gefið út sjö plötur í eigin nafni, auk fjölmargra annarra í samstarfi sem hafa oft á tíðum hlotið góða umfjöllun. Andrés hefur komið fram með mörgum af helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar og ýmsum þekktum erlendum djassleikurum jafnt hérlendis sem erlendis. Andrés kennir við Menntaskóla í tónlist og Listaháskóla Íslands.

Tónleikaröðin er styrkt af Tónlistarsjóði, Hafnarfjarðarbæ og Menningarsjóði FÍH.