Síðdegistónar – Tríó Stínu Ágústsdóttur

Á næstu tónleikum tónleikaraðarinnar Síðdegistóna í Hafnarborg, föstudaginn 22. apríl, mun söngkonan Stína Ágústsdóttir koma fram í tríói ásamt þeim Agnari Má Magnússyni á píanó og Andrési Þór á gítar. Á efnisskránni verður blanda af djass-slögurum, popplögum í djassbúningi og eigin efni. Tónleikarnir hefjast kl. 18 og standa yfir í um klukkustund. Aðgangur er ókeypis.

Stína Ágústsdóttir, söngkona, hefur komið fram víða hérlendis síðastliðin ár og var til að mynda tilnefnd sem flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í fyrra. Hún hefur meðal annars gefið út plöturnar Jazz á íslensku (2016), Hjörtun okkar jóla (2019), The Whale (2020) og Drown to Die a Little (2022) sem allar hafa hlotið mikið lof. Stína er búsett í Stokkhólmi og hefur á síðustu árum unnið með nokkrum af fremstu tónlistarmönnum þar í landi en hún kemur þó reglulega til Íslands og syngur á tónleikum.

Agnar Már Magnússon er einn af fremstu djasspíanistum landsins og hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi. Hann hefur gefið út fjölda hljómplatna í eigin nafni og þá hefur hann hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin nokkrum sinnum fyrir útgáfur sínar. Hann hefur leikið á tónleikum hérlendis sem erlendis, verið píanóleikari í fjölbreyttum verkefnum og annast tónlistarstjórn í leikhúsi, auk þess sem hann er eftirsóttur kennari.

Andrés Þór hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi til fjölda ára og hefur gefið út sjö plötur í eigin nafni, auk fjölmargra annarra í samstarfi sem hafa oft á tíðum hlotið góða umfjöllun. Andrés hefur komið fram með mörgum af helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar og ýmsum þekktum erlendum djassleikurum jafnt hérlendis sem erlendis. Andrés kennir við Menntaskóla í tónlist og Listaháskóla Íslands.

Tónleikaröðin er styrkt af Tónlistarsjóði, Hafnarfjarðarbæ og Menningarsjóði FÍH.