Síðdegistónar – Svavar Knútur & hljómsveit

Svavar Knútur & Hljómsveit

Næstu tónleikar tónleikaraðarinnar Síðdegistónar í Hafnarborg fara fram föstudaginn 4. febrúar kl. 18. Þá kemur fram söngvaskáldið Svavar Knútur ásamt hljómsveit sem skipa þau Ingibjörg Elsa Turchi á bassa, Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir á trommur og Andrés Þór á gítara. Á efnisskránni verður sannkölluð söngvaskáldaveisla en hljómsveitin mun leika mörg af helstu lögum Svavars sem hafa notið mikilla vinsælda undanfarið, lög af plötunum Ölduslóð, Brot, Ahoy! Side A og Bil.

Aðgangur er ókeypis. Grímuskylda er á tónleikana sem standa yfir í um klukkustund.
Tónleikarnir eru hluti af dagskrá Hafnarborgar á Vetrarhátíð 2022 sem fer fram dagana 3. – 6. febrúar.

Svavar Knútur, söngvaskáld, hefur undanfarin ár skapað sér sess meðal fremstu söngvara og lagahöfunda Íslands. Með einlægni og látleysi að vopni hefur Svavar Knútur náð að skapa sér sérstöðu jafnt fyrir frumsamin lög sín og túlkun á sígildum íslenskum sönglögum. Þá hefur hann sótt sífellt meiri innblástur í íslenskar sögur, tungumálið, samfélag og náttúru í lagasmíðum sínum. Svavar Knútur er þekktur fyrir að blanda saman húmor og alvarlegum málefnum, að draga áhorfendur sína gegnum hláturrokur og táradali, en sá um leið fræjum vonar og æðruleysis.

Ingibjörg Elsa Turchi, bassaleikari og tónskáld, hefur verið afar sýnileg í íslensku tónlistarlífi síðustu árin og hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Stuðmönnum og Teiti Magnússyni. Hún hefur einnig samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og verið í hljómsveit í Þjóðleikhúsinu. Hún gaf út stuttskífuna Wood/Work árið 2017 þar sem rafbassinn var í aðalhlutverki. Í júlí 2020 gaf Ingibjörg svo út sína fyrstu plötu í fullri lengd, Meliae, og hélt áfram að víkka út hljóðheim sinn með hjálp hljómsveitar sinnar. Árið 2020 hlaut platan Meliae Kraumsverðlaunin, var valin plata ársins af Morgunblaðinu og straum.is og fékk 5 stjörnur í gagnrýni Morgunblaðsins. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 hlaut Ingibjörg sex tilnefningar og hlaut tvenn verðlaun, annars vegar fyrir plötu ársins í flokki Djass-og blústónlistar og fyrir Upptökustjórn í Opnum flokki. Í september 2021 var platan svo tilnefnd til Hyundai Nordic Music Prize. Einnig var hljómsveitin valin til að fara fyrir hönd Íslands á Nordic Jazz Comets 2020 og í kjölfarið á Finnlandstúr í september 2021.

Lóa  (Svanhildur Lóa Bergsteinsdóttir) er 23 ára trommu-og slagverksleikari.
Hún útskrifaðist með framhaldspróf í klassískum slagverksleik frá MÍT árið 2017 og spilar í mörgum mismunandi verkefnum, bæði á trommusett og annarskonar slagverk.
Sem dæmi má nefna Kardemommubæinn og leikritið Ásta í Þjóðleikhúsinu, Cell7, Raven, Salóme Katrínu, Kammersveitina Elju og fleiri samspilshópa, bæði Jazz, popp og klassíska, ásamt því að kenna á slagverk í Skólahljómsveit Vestur- og miðbæjar.

Andrés Þór lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla FÍH 1999, BA gráðu í jazzgítarleik og kennslufræðum frá Konunglega tónlistarháskólanum í Haag í Hollandi 2004 og MA gráðu frá sama skóla árið 2006.  Andrés hóf að starfa sem hljóðfæraleikari 1994 á dansleikjum en síðari ár hefur hann verið virkur í íslensku tónlistarlífi með eigin jazzhljómsveitir auk þess að starfa sem hljóðfæraleikari í hljóðverum, tónleikauppfærslum og í leiksýningum.  Andrés hefur gefið út fjölmarga hljómdiska í eigin nafni sem og í samstarfi við aðra. Andrés hlaut íslensku tónlistarverðlaunin 2019 fyrir tónverk ársins í jazz og blúsflokki og var útnefndur Bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2014.