Síðdegistónar – Silva Þórðardóttir & Steingrímur Teague ásamt hljómsveit

Föstudaginn 16. desember kl. 18 munu þau Silva Þórðardóttir, söngkona, og Steingrímur Teague, píanóleikari og söngvari, koma fram ásamt þeim Andra Ólafssyni, bassaleikara, og Andrési Þór, gítarleikara, á fjórðu tónleikum Síðdegistóna í Hafnarborg á þessum vetri. Þá munu þau flytja efni af djassplötunni More Than You Know í bland við ýmsa jólastandarda, svo sem hið melankólíska lag „What Are You Doing New Year’s Eve?“, sem þau gáfu út nýlega.

Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.

Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ og Menningarsjóði FÍH.


Um plötuna More Than You Know:
Djassplatan myrka en ljúfa More Than You Know kom út á vínyl í sumarbyrjun 2022. Hljóðfæraskipan er fábrotin með eindæmum: Silva Þórðardóttir syngur og Steingrímur Teague spilar á wurlitzer og filtdempað píanó, ásamt því að raula annað slagið. Fyrir utan eitt örstutt bassaklarinettsóló – sem Jóel Pálsson leikur upp úr þurru í bláendann – koma engir aðrir flytjendur við sögu á plötunni. Lítið er um flugelda og bellibrögð í hljóðfæraleik en hverfandi áhersla er lögð á hefðbundna sveiflu eða grúv og af þeim rúmu tuttugu mínútum sem platan spannar fara mögulega tvær í sóló. Í staðinn er  áherslan lögð á lögin sjálf og að skapa þeim bæði veglega og sérstæða umgjörð. Hægt er að hlusta á plötuna á Spotify með því að smella hér.