Síðdegistónar – Ragnheiður Gröndal & hljómsveit

Desembertónleikar Síðdegistóna í Hafnarborg fara fram föstudaginn 17. desember kl. 18 en nú þegar styttist í hátíð ljóss og friðar verður efniskráin í hátíðlegri kantinum og vel valdar jólaperlur á boðstólum.

Á tónleikunum mun söngkonan Ragnheiður Gröndal koma fram ásamt þeim Hauki Gröndal, saxófónleikara, Birgi Steini Theodórssyni, kontrabassaleikara, og Andrési Þór Gunnlaugssyni, gítarleikara.

Tónleikaröðin er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís, Hafnarfjarðarbæ og menningarsjóði FÍH.

Aðgangur er ókeypis en takmarkaður fjöldi sæta er í boði vegna gildandi takmarkana. Hægt er að taka frá sæti í síma 585 5790 á opnunartíma safnsins eða í tölvupósti á [email protected] en einnig verður hægt að skrá sig á staðnum, að því gefnu að sæti séu enn laus. Tónleikarnir vara í um klukkustund og er grímuskylda meðan á þeim stendur.