Síðdegistónar – Los Bomboneros

Föstudaginn 10. nóvember kl. 18 bjóðum við ykkur velkomin á næstu Síðdegistóna í Hafnarborg en þá mun koma fram hljómsveitin Los Bomboneros sem hefur getið sér gott orð fyrir túlkun sína á sjóðheitri suðrænni tónlist. Efnisskráin verður með öðru sniði en hefðbundið prógramm Los Bomboneros sem einkennist alla jafna af dansvænni tónlist. Hér verða þjóðlagahefðir Suður-Ameríku hins vegar heiðraðar við lágstemmdari stemningu í glænýjum útsetningum úr ranni sveitarinnar. Þá er af nógu að taka og ber helst að nefna lagasmelli sem söngkonan Mercedes Souza og krúnerinn Julio Jaramillo gerðu fræga ásamt ýmsu öðru góðgæti, allt frá þrískiptum takti Andesþjóðanna yfir í angurværan söng mariachi-söngvara Mexikó.

Los Bomboneros skipa þau Alexandra Kjeld (söngur, bassi), Daníel Helgason (tresgítar), Kristofer Rodriguez Svönuson (slagverk) og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir (básúna, fiðla). Hljómsveitin hefur sérhæft sig í tónlist Mið- og Suður-Ameríku ásamt frumsömdu efni og hefur komið víða fram við miklar vinsældir en tónleikar sveitarinnar eiga það gjarnan til að breytast í funheitt danspartý þrátt fyrir að hljómsveitin muni nú bjóða upp á öðruvísi stemningu.

Tónleikarnir standa í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.

Tónleikaröðin er styrkt af Hafnarfjarðarbæ og Tónlistarsjóði Rannís.