Næstu tónleikar tónleikaraðarinnar Síðdegistóna í Hafnarborg fara fram föstudaginn 19. nóvember kl. 18. Þá leikur Kvartett Sunnu Gunnlaugs. Kvartettinn skipa, auk Sunnu sem leikur á píanó, þau Leifur Gunnarsson á kontrabassa, Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir á trommur og Andrés Þór sem leikur á gítar. Á tónleikunum munu þau leika fjölbreytta efnisskrá íslenskra djass-slagara og íslenskra dægurlaga í djassbúningi. Lög úr smiðju Magnúsar Eiríkssonar, Jóns Múla Árnasonar og ýmissa fleiri.
Aðgangur er ókeypis en fjöldi áhorfenda takmarkast við 50 manns, auk þess sem grímuskylda er á tónleikana. Tónleikarnir standa yfir í um klukkustund.
Sunna Gunnlaugs hefur gefið út ellefu plötur, mest með eigin tónsmíðum, og komið fram í Kanada, Bandaríkjunum, Japan og um gervalla Evrópu. Tónlist hennar hefur hlotið lof gagnrýnenda um víðan heim og plötur hennar ratað inn á hina ýmsu topplista. Sunna hefur auk þess hlotið fjölda tilnefninga til Íslensku tónlistarverðlaunanna og var kosinn flytjandi ársins 2015 og 2019. Þá var Sunna útnefnd Bæjarlistamaður Kópavogs í ár. Hún kennir við tónlistarskóla Garðabæjar.
Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir er trommu- og slagverksleikari. Hún útskrifaðist með framhaldspróf í klassískum slagverksleik frá MÍT árið 2017 og hefur tekið þátt í mörgum mismunandi verkefnum, bæði á trommusett og annars konar slagverk. Sem dæmi má nefna Kardemommubæinn og Ástu í Þjóðleikhúsinu, auk samstarfs við Cell7, Raven, Salóme Katrínu, Kammersveitina Elju og fleiri samspilshópa, bæði á svið djass-, popp- og klassískrar tónlistar, ásamt því að kenna á slagverk í Skólahljómsveit vestur- og miðbæjar.
Leifur Gunnarsson lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla FÍH vorið 2009 og útskrifaðist svo frá Rytmíska konservatoríinu í Kaupmannahöfn vorið 2013 með B.Mus. gráðu í kontrabassaleik. Auk þess að hafa verið virkur í hljómsveitastarfi hefur Leifur skrifað og flutt mikið af eigin tónlist, gert margmiðlunarverkefni tengd tónlist og spuna við verk Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara, unnið að hljóðupptökum og tekið þátt í skipulagningu og framkvæmd Jazzhátíðar Reykjavíkur. Síðan 2014 hefur Leifur unnið við listræna stjórnun tónleikaraðarinnar Jazz í hádeginu. Leifur hefur gefið út tvær plötur með eigin tónsmíðum, Húsið sefur og Tón úr tómi. Þá sá hann alfarið um útgáfu hljóðrita rússneska harmónikuleikarans Vadim Fyodorov. Síðastliðin misseri hefur tónlistarmiðlunarverkefnið Yngstu hlustendurnir átt hug hans allan en þar vinnur Leifur að því að skapa umgjörð til að miðla djasstónlist til barna og barnafjölskyldna.
Andrés Þór hefur gefið út sex plötur í eigin nafni og fjölmargar fleiri í ýmsum samstarfsverkefnum. Árið 2014 var Andrés útnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar, auk þess sem hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar í formi tilnefninga til ýmissa verðlauna, hvatningarverðlaun og listamannalaun. Auk þess að hafa starfað með mörgum helstu tónlistarmönnum landsins hefur Andrés komið fram á tónleikum með mörgum heimsþekktum djasstónlistarmönnum á borð við Michael Brecker, Ari Hoenig og Perico Sambeat. Andrés hefur komið fram víða á Íslandi og í Hollandi, Belgíu, Lúxemborg, Frakklandi, Tékklandi, Slóvakíu, Noregi, Spáni, Bandaríkjunum og Þýskalandi. Andrés starfar sem kennari við MÍT og við Listaháskóla Íslands.
Tónleikaröðin er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís, Hafnarfjarðarbæ og menningarsjóði FÍH.