Föstudaginn 27. nóvember kl. 18 mun jazztríóið ASA Tríó ásamt saxafónleikaranum Jóel Pálssyni stíga á stokk á þriðju tónleikum tónleikaraðarinnar Síðdegistóna í Hafnarborg. Vegna gildandi samkomutakmarkana verður tónleikunum streymt beint á Facebook og á heimasíðu Hafnarborgar. Við hvetjum áheyrendur til að koma sér vel fyrir heima í stofu og njóta er þeir félagar leika úrval af glænýju efni eftir alla fjóra meðlimi hljómsveitarinnar sem nýlega hefur verið hljóðritað til útgáfu.
Beina slóð á streymið má finna hér en hægt er að fylgjast með tónleikunum í spilaranum hér fyrir neðan, þar sem þeir verða jafnframt aðgengilegir áfram.
ASA Tríó hefur verið starfrækt frá árinu 2005 og hefur gefið út tvo hljómdiska í eigin nafni auk þess að gefa út nokkrar hljómleikaútgáfur sem eru aðgengilegar á stafrænu formi á heimasíðu tríósins. Tríóið skipa þeir Andrés Þór gítarleikari, Agnar Már Magnússon orgelleikari og Scott McLemore trommuleikari, þeim til fulltingis verður saxafónleikarinn Jóel Pálsson sem ætti að vera tónlistaráhugafólki víðsvegar að góðu kunnur en hann hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi um árabil og gefið út fjölmarga hljómdiska sem hafa hlotið ótal viðurkenninga.
Andrés Þór lauk burtfararprófi frá tónlistarskóla FÍH, bachelorsgráðu og mastersgráðu frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Den Haag í Hollandi þar sem hann lærði hjá Peter Niewerf, Wim Bronnenberg, Hein van der Geyn og John Ruocco, auk þess að sækja námskeið hjá hljóðfæraleikurum eins og Avishai Cohen, Kurt Rosenwinkel, Kenny Wheeler og John Abercrombie. Andrés flutti heim frá Hollandi árið 2004 og hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi síðan og gefið út fjölda geisladiska í eigin nafni og í ýmsum samstarfsverkefnum sem hafa margir hverjir hlotið mikið lof jafnt hérlendis sem erlendis. Andrés starfar einnig sem tónlistarkennari við tónlistarskóla FÍH, MÍT (menntaskóla í tónlist) og við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Árið 2014 var Andrés útnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar, Andrés hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2019 fyrir tónverk í flokki jazz og blús fyrir verkið Avi og hefur hlotið tilnefningar til fjölda verðlauna, ásamt hvatningarverðlaunum og listamannalaunum. Auk þess að hafa starfað með mörgum af helstu tónlistarmönnum á Íslandi hefur Andrés komið fram á tónleikum með mörgum heimsþekktum jazztónlistarmönnum á borð við Michael Brecker, Ari Hoenig og Perico Sambeat. Andrés hefur komið fram víða á Íslandi og í Hollandi, Belgíu, Luxemburg, Frakklandi, Tékklandi, Slóvakíu, Noregi, Spáni, Bandaríkjunum og Þýskalandi.
Agnar Már Magnússon lauk burtfararprófi frá tónlistarskóla FÍH og Conservatorium van Amsterdam og hélt þaðan til New York í einkanám hjá djasspíanistanum Larry Goldings. Í New York komst Agnar í kynni við fleiri þekkta tónlistarmenn á sviði djassins en þau kynni leiddu m.a. til útgáfu fyrsta geisladisks hans sem ber nafnið 01. Frá því þá hefur Agnar ásamt öðrum tónlistarmönnum gefið af sér fjölda geisladiska til viðbótar. Agnar hefur margoft verið tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna og tvisvar hlotið þau. Agnar skrifaði heila dagskrá fyrir Stórsveit Reykjavíkur 2010 og var hún flutt á tónleikum það ár. Tvö verkanna voru svo tekin upp og gefin út 2011 á disknum HAK. Sá diskur hlaut íslensku tónlistarverðlaunin sem djass diskur ársins. Agnar hefur starfað með heimsklassa-djasstónlistarmönnum. Þar má nefna Bill Stewart, Ben Street, Seamus Blake, Chris Cheek, Ingrid Jensen, Frank Foster, Drew Gress, John Hollenbeck, Ari Hoenig og Perico Sambeat. Agnar hefur á tónlistarferli sínum unnið til verðlauna eins og „Outstanding Musicianship Award“ frá Berklee tónlistarháksólanum í Boston, auk þess að komast í undanúrslit í alþjóðlegu djass-píanókeppninni Martial Solal í París haustið 2002. Hann hefur útsett lög fyrir geislaplötur og söngleiki, starfað með Stórsveit Reykjavíkur í mörg ár, leikið á tónleikum hérlendis sem erlendis, verið píanóleikari og annast tónlistarstjórn í leikhúsi. Agnar sá meðal annars um tónlistina í Söngvaseið, Mary Poppins og Billy Elliot fyrir Borgarleikhúsið. Agnar starfar nú sem djasspíanisti en kennir jafnframt píanóleik og tónsmíðar við djassdeild Tónlistarskóla FÍH og MÍT en þar hefur hann starfað síðan 2001. Agnar var útnefndur bæjarlistamaður Garðabæjar 2010.
Scott McLemore, trommuleikari, útskrifaðist með B.M. Í jazzfræðum frá William Paterson College árið 1987. Hann var virkur á jazzsenunni í New York næstu ár og hefur leikið út um víðan heim. Hann fluttist búferlum til Íslands 2005 og hefur komið víða við í íslensku tónlistarlífi. Hann gaf út diskinn Remote Location með eigin tónsmíðum 2012 og hlaut tilnefningar til íslensku tónlistarverðlaunanna í þremur flokkum. Scott gaf út hljómdiskinn The Multiverse árið 2018 þar sem hann fékk til liðs við sig Hilmar Jensson á gítar, Pierre Perchaud frá Frakklandi á gítar og Mats Eilertsen frá Noregi á bassa. Kvartettinum bauðst að koma fram á JazzAhead í Bremen 2019 og einnig á InJazz í Rotterdam. Scott hlaut tilnefningu til íslensku Tónlistarverðlaunanna fyrir plötu ársins, tónsmíð ársins og sem tónskáld ársins.
Jóel Pálsson hefur verið atkvæðamikill í íslensku tónlistarlífi á undanförnum árum og tekið þátt í fjölmörgum verkefnum á ólíkum sviðum tónlistar. Hann hefur leikið á fjölda hljómplatna og komið fram í Evrópu, Bandaríkjunum, Kanada og Kína á tónleikum og tónlistarhátíðum. Jóel hefur áður gefið út plöturnar Prím, Klif, Septett, Varp, Horn, Innri og Dagar koma með frumsaminni tónlist, auk platna sem hann hefur unnið í samstarfi við aðra; Stikur (með Sigurði Flosasyni) og Skuggsjá (með Eyþóri Gunnarssyni). Jóel er meðlimur í Stórsveit Reykjavíkur og hljómsveitinni Annes. Hann hefur hlotið íslensku tónlistarverðlaunin sex sinnum fyrir plötur sínar og verið tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs tvisvar, árin 2011 og 2016. Auk tónlistarstarfa stofnaði Jóel hönnunarfyrirtækið Farmers Market – Iceland árið 2005 ásamt eiginkonu sinni, Bergþóru Guðnadóttur, og sinnir rekstri þess meðfram tónlistarstörfum sínum.