Samfélag skynjandi vera – listamannsspjall og gjörningur

Laugardaginn 23. október kl. 13 mun listamaðurinn Michelle Sáenz Burrola taka á móti gestum í Hafnarborg og fjalla um verk sitt á sýningunni Samfélagi skynjandi vera. Leiðsögnin fer fram á ensku. Listamaðurinn Rúnar Örn Jóhönnu Marinósson verður svo með vikulegan laugardagsgjörning sinn kl. 14, í tengslum við verk sitt á sýningunni, Sjúga & spýta lifa og starfa.

Á sýningunni er leitast við að skoða tengingu okkar við heiminn í nýju ljósi, með því að líta á okkur öll sem eitt stórt samfélag skynjandi vera. Þá má nálgast ólík viðfangsefni á nýjan hátt, hvort sem við eigum við samband manns og náttúru, manns og menningar eða samband mannsins við sjálfan sig. Hugtakið skynjandi vera leysir okkur þannig undan viðjum gildishlaðinna orða, svo hægt er að ímynda sér hvað það er að vera manneskja í stærra samhengi. Meginhugmyndin er að spyrja spurninga um sagn- og félagsfræðilega merkingu hins mannlega, svo sem hún varðar það hvað og hver við teljum tilheyra samfélaginu.