Opnun – Algjörar skvísur og Þú ert hér

Fimmtudaginn 28. ágúst kl. 20 bjóðum við ykkur velkomin á opnun tveggja nýrra sýninga í Hafnarborg en að þessu sinni kynnum við haustsýningu safnsins árið 2025, Algjörar skvísur, í sýningarstjórn Jösu Baka og Petru Hjartardóttur, og Þú ert hér: Frá Uppsölum til Hafnarfjarðar og Hafnarfirði til Uppsala, sem sett er upp í samstarfi við listaverkasafn Uppsalaborgar.

Algjörar skvísur
Haustsýning Hafnarborgar 2025

Sýningin Algjörar skvísur býður gestum að kanna þemu sem tengjast mýkt, krafti og kvenlegri orku í samtímalist. Sýningin hverfist um ólíkar birtingarmyndir sætleikans, guðdómlegar og goðsagnakenndar kvenlegar erkitýpur og andahyggjuna sem lítur á (móður) náttúru sem síkvika veru. Þá eru þessar hugmyndir skoðaðar út frá því hvernig þær eiga við fólk, staði og hluti, einkum nú þegar segja má að kvenlegar erkitýpur séu að koma fram úr fylgsnum sínum og umbreyta skilningi okkar á sjálfsmynd og jafnvægi.

Á sýningunni má finna verk sem unnin eru í margvíslega miðla en markmiðið með sýningunni er að varpa ljósi á það hvernig þátttakendur túlka hinar ýmsu erkitýpur og goðsagnaverur, sem og samband okkar við náttúruna. Þannig býður Algjörar skvísur upp á áhugaverð sjónarhorn á viðkvæmni og mennsku með því að opna gátt fyrir hið yfirnáttúrulega til að flæða inn í jarðneskt líf.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru Berglind Ágústsdóttir og Hrefna Sigurðardóttir, Darsha Hewitt og Svava Skúladóttir, Dýrfinna Benita Basalan og Róska, Gunnhildur Hauksdóttir og Gunnþórunn Sveinsdóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir og Kíkó Korriró, Hulda Vilhjálmsdóttir og Jóhannes S. Kjarval, Veronica Brovall og Sóley Eiríksdóttir. Sýningarstjórar eru Jasa Baka og Petra Hjartardóttir.

Þú ert hér
Frá Uppsölum til Hafnarfjarðar og Hafnarfirði til Uppsala

Hvað er hér, hvað er heima, hvað er nærumhverfi eða -samfélag? Allt eru þetta afstæð hugtök sem miðast við stöðu eða samband einstaklingsins við umheiminn. Við staðsetjum okkur á landakorti, búum til heimili og lærum að þekkja aðstæður, myndum tengsl og skynjum okkur sem hluta af heild. En þetta sjónarhorn – líkt og allt annað – getur tekið breytingum, hvort sem er á ferðalagi eða við búferlaflutninga, til dæmis.

Á sýningunni getur að líta verk úr listaverkasafni Uppsala, vinabæjar Hafnarfjarðar, sem staðsettur er í 2085 kílómetra fjarlægð héðan, eins og stendur á götuskilti við Ráðhús bæjarins, sem vísar til 10 vinabæja Hafnarfjarðar. Verkin bera vott um lífið í Uppsölum, umhverfi bæjarins og sögu en þá kann margt í okkar eigin lífi og umhverfi að minna á hinn sænska veruleika. Enda er margt sem sameinar okkur eða er líkt á norðurslóðum: svipað loftslag og kaldar nætur, gróður og dýralíf, viðhorf og gildismat, að ógleymdum hinum sameiginlega menningararfi Norðurlanda.

Þá er markmiðið með sýningunni að draga fram tengslin á milli vinabæjanna og bjóða gestum að ferðast í huganum til Uppsala. Þá sjáum við eigin veruleika og heim þeirra sem þar búa frá nýju sjónarhorni, frá afstæðum punkti sem fyrirfinnst hvorki þar né hér, heldur verður til innra með okkur, í eigin hugskoti. Því að það er ekkert sem tengir okkur eins og að setja okkur í spor annarra – sjá og skilja lífið í gegnum listina. Sýningarnefnd: Aldís Arnadóttir, Hólmar Hólm, Mikaela Granath og Tove Otterclou.

Aðgangur ókeypis – sjáumst í Hafnarborg.