Menningarganga – Útilistaverk á Víðistaðatúni

Fimmtudaginn 9. júlí kl. 20 mun Eiríkur Hallgrímsson, leiðsögumaður og listfræðingur, leiða göngu um Víðistaðatún og segja frá útilistaverkunum sem þar er að finna. Gengið verður frá bílastæðinu við Víðistaðakirkju.

Mörg verkanna, sem eru bæði eftir innlenda og erlenda listamenn, voru unnin í alþjóðlegri vinnustofu myndhöggvara í tengslum við Listahátíð í Hafnarfirði, sem haldin var árin 1991 og 1993, en þar var grunnurinn einmitt lagður að höggmyndagarði Hafnarfjarðar á svæðinu. Verkin mynda jafnframt stóran hluta útilistaverkasafns Hafnarborgar og Hafnarfjarðarbæjar.

Menningar- og heilsugöngur eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Í sumar er boðið upp á menningar- og heilsugöngur öll fimmtudagskvöld kl. 20. Flestar göngur taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram, þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.