Miðvikudaginn 4. júní kl. 20 mun Jónatan Garðarsson leiða göngu um slóðir tveggja vel þekktra hafnfiskra listamanna, þeirra Eiríks Smith og Sveins Björnssonar, sem báðir hefðu orðið 100 ára á þessu ári en af því tilefni standa yfir sýningar á verkum listamannanna í Hafnarborg í sumar. Gangan hefst við safnið og farið verður meðal annars um Suðurgötu, Kinnahverfið og upp í Setberg.
Í göngunni verður staldrað við ýmsa staði sem tengjast lífi og list þeirra Eiríks og Sveins. Eiríkur hélt sína fyrstu sýningu í Sjálfstæðishúsinu en hann bjó einnig um tíma á Selvogsgötu, Þýskubúð og víðar í Hafnarfirði. Á Suðurgötunni verður rifjað upp að þar var áður lögreglustöð bæjarins en í gamla sýslumannshúsinu þar fyrir ofan hafði Sveinn skrifstofu um árabil – og var þekktur fyrir að skissa á allt sem hendur hans komust yfir. Sveinn hóf hins vegar listferil sinn þegar hann var sjómaður og bjó þá á Öldugötu. Hann byggði síðar hús í Köldukinn og Eiríkur reisti sömuleiðis hús við Stekkjarkinn.
Þá verður gengið um gamla Kanaveginn þar sem Eiríkur brenndi fjölmargar myndir og þaðan haldið upp í Setberg að heimili hans þar. Á heimleið verður farið um Sunnuveg, þar sem Sveinn og Sólveig leigðu hjá Hákoni, teiknikennara. Þar á móti bjó svo listmálarinn Gunnlaugur Scheving, sem hafði mikinn áhuga á þeim myndum sem Sveinn málaði á sjónum.
Gengið verður frá Hafnarborg.
Hafnarfjarðarbær býður upp á menningar- og heilsugöngur öll miðvikudagskvöld í sumar. Flestar göngurnar taka um klukkustund og hefjast kl. 20, nema annað sé tekið fram. Menningar- og heilsugöngur eru samstarfsverkefni Hafnarborgar, Byggðasafns Hafnarfjarðar, Bókasafns Hafnarfjarðar og Heilsubæjarins Hafnarfjarðar. Þátttaka er ókeypis og öll velkomin.