Ljós verður mynd – listasmiðja

Laugardaginn 2. apríl kl. 14-16 býður Hafnarborg fjölskyldum að koma og taka þátt í skapandi listasmiðju í tengslum við sýningu Hallgerðar Hallgrímsdóttur Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun III. hluti sem nú stendur yfir í Sverrissal Hafnarborgar.

Í listasmiðjunni verður unnið með ljósnæman pappír og eru þátttakendur hvattir til að gera tilraunir með ólík form og aðferðir til að skapa sitt eigið ljós-verk á pappír undir handleiðslu safnkennara.

Þegar þátttakendur hafa skapað sitt eigið listaverk er upplagt að kíkja á yfirstandandi sýningar í safninu.

Þátttaka í smiðjunni er gestum að kostnaðarlausu og allt efni sem þarf til sköpunarinnar verður á staðnum.

Á sýningunni Fáeinar vangaveltur um ljósmyndun III. hluti beinir Hallgerður sjónum sínum að ljósmyndatækninni sem miðli, þar sem hún skoðar bæði veruleikann í ljósmyndinni sem og veruleika ljósmyndarinnar sjálfrar. Verkin eru unnin með ólíka möguleika miðilsins í huga sem felast ekki bara í því að fanga viðfangsefnið í fallegri birtu, heldur líka öllu sem gerist í myndavélinni, í myrkraherberginu og, nú nýlega, í stafrænni vinnslu. Þá getur myndin farið í óteljandi ólíkar áttir á hverju stigi í ferlinu, enda er engin ein rétt leið til að búa til ljósmynd. Sýningin er hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.