Listamannsspjall – Kristinn G. Harðarson

Kristinn G. Harðarson

Á skírdag fimmtudaginn 2. apríl kl. 15 mun Kristinn G. Harðarson myndlistarmaður taka þátt í leiðsögn og ræða við safngesti um verk sín á sýningunni MENN í Hafnarborg. 

Kristinn G. Harðarson (f. 1955) hefur á ferli sínum fengist við ólík viðfangsefni sem flest tengjast þó samfélagsrýni. Nærumhverfið er honum hugleikið og nokkur hluti verka hans tengist stöðu hans sem föður, heimilinu og fjölskyldulífi. Þessum verkum hefur hann tíðum fundið form í miðla sem löngum hafa verið tengdir sköpun kvenna svo sem í útsaum. Kristinn nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1973 – 1977 og stundaði framhaldsnám við listaakademíuna í Haag í Hollandi.

Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna. Á sýningunni eru verk eftir fjóra karllistamenn, þá Hlyn Hallson, Curver Thoroddsen, Finn Arnar Arnarsson og Kristinn G. Harðarson. Nánar um sýninguna hér.