Listamannsspjall – Hulda Vilhjálmsdóttir

Hulda Vilhjálmsdóttir

Sunnudaginn 7. desember kl. 15 mun Hulda Vilhjálmsdóttir segja gestum frá verkum sínum á sýningunni Vara-litir sem nú stendur yfir í Hafnarborg.

Hulda Vilhljálmsdóttir útskrifaðist af málaradeild Listaháskóla Íslands árið 2000 og hefur sinnt málverkinu af dyggð síðan. Manneskjan, hvatir hennar og kenndir eru meginviðfangsefni í verkum Huldu sem hún málar á tilfinninga- og tjáningarríkan hátt. Verkin eru áköf, hröð og einlæg og eru sprottin af brennandi tjáningarþörf. Hulda notast við mismunandi aðferðir í málaralist sinni og fæst einnig við skrif og gjörninga. Hún hefur tekið þátt í fjölda einka- og samsýninga á íslandi og í Danmörku.

Sýningin Vara-litir einkennist af litaflaumi og frásagnargleði. Bjartir og fjörmiklir litir eru áberandi á sýningunni og undirstrika óttaleysi og hispurslausa tjáningu listamannanna. Verkin á sýningunni eiga það sameiginlegt að vera hlaðin litum og formum sem endurspegla tíðaranda 21. aldarinnar, þar sem ofgnótt upplýsinga hleður hvert augnablik. Í verkunum kallast á margslungnir heimar ólíkra listamanna þar sem hlutir og verur leika lausum hala. Á sýningunni eru ný verk eftir Gabríelu Friðriksdóttur, Guðmund Thoroddsen, Helga Þórsson, Huldu Vilhjálmsdóttur, Ragnar Þórisson, Þorvald Jónsson og Þórdísi Aðalsteinsdóttur.  Sýningarstjóri er Birta Fróðadóttir.