Listamannsspjall

Hlynur Hallsson

Sunnudaginn 29. mars kl. 15 tekur Hlynur Hallsson myndlistarmaður þátt í leiðsögn og ræðir við gesti um verk sín á sýningunni MENN í Hafnarborg.

Hlynur Hallsson (f. 1968) hefur vakið athygli fyrir verk sem fjalla um samfélagsmál og pólitík í víðu samhengi og fjalla verk hans gjarnan um samskipti, skilning, tengsl, stjórnmál og hversdagslega hluti. Hlynur stundaði myndlistarnám við Myndlistaskólann á Akureyri og í fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands áður en hann hélt til framhaldsnáms í Þýskalandi þaðan sem hann lauk meistaragráðu 1997. Hlynur hefur setið á Alþingi og sinnt trúnaðarstörfum fyrir myndlistarmenn. Hann er nú forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri.

Sýningin MENN beinir sjónum að stöðu karla við upphaf 21. aldar og þeim breytingum sem orðið hafa á högum þeirra í ljósi breyttrar stöðu kvenna. Á sýningunni eru verk eftir fjóra karllistamenn, þá Hlyn Hallson, Curver Thoroddsen, Finn Arnar Arnarsson og Kristinn G. Harðarson. Nánar um sýninguna hér.