Listamannaspjall – Libia Castro & Ólafur Ólafsson

Libia Castro & Ólafur Ólafsson

Listamennirnir og handhafar Íslensku myndlistarverðlaunanna 2021, Libia Castro & Ólafur Ólafsson, verða með listamannaspjall laugardaginn 22. maí kl. 13:00. Þar munu þau ræða inntak sýningarinnar Töfrafundur – áratug síðar sem þau ásamt Töfrateyminu standa að. Sýningin er enn einn kaflinn í áratugalöngu og marglaga starfi listamannanna, sem einkennist af félagslegri virkni og inngripi, þar sem þau kanna tengslin á milli listar og aktívisma, auk þess sem þau vinna með kynngi listarinnar og mögulegan kraft hennar til að stuðla að samfélagslegum breytingum.

Efni sýningarinnar er hin nýja stjórnarskrá Íslands, sem var skrifuð í framhaldi af kröfum almennings um siðferðislegar umbætur í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008, en verkefnið vakti heimsathygli vegna þess dæmalausa og lýðræðislega ferlis sem þar var fylgt. Þann 20. október 2012 samþykkti íslenska þjóðin svo loks hina nýju stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nýja stjórnarskráin hefur hins vegar enn ekki verið samþykkt af Alþingi Íslendinga.

Libia Castro & Ólafur Ólafsson hafa átt í farsælu samstarfi síðan 1997 og hafa verk þeirra verið sýnd víða um heim við fjölmörg tækifæri, þar á meðal á 8. Havana-tvíæringnum, í Van Abbe safninu, á Manifesta 7 og 54. Feneyjatvíæringnum, í CAAC Seville og Kunst-Werke Berlin, á 19. Sidney-tvíæringnum, í Listasafni Noregs, Nasjonalgalleriet, og La Casa Invisible. Þau starfa í Reykjavík, Berlín, Rotterdam og Málaga.