Landslag fyrir útvalda – skapandi hattasmiðja

Laugardaginn 4. nóvember kl. 13-15 bjóðum við börnum og fjölskyldum að koma og taka þátt í skapandi hattasmiðju í tengslum við yfirstandandi haustsýningu Hafnarborgar, Landslag fyrir útvalda, þar sem möguleikar veruleikaflótta eru skoðaðir.

Þá mun Sól Hansdóttir, fatahönnuður og einn þátttakenda í sýningunni, leiða smiðjuna, þar sem þátttakendur munu búa til hatt með listrænni útfærslu undir hennar handleiðslu. Þar verður kannað hvenær hattur verður meira en aðeins einfalt höfuðfat með notagildi, heldur hvernig líta má á hatt sem skúlptúr eða listaverk í sjálfu sér. Allt efni til sköpunarinnar er útvegað af Hafnarborg.

Sól Hansdóttir (f. 1994) útskrifaðist með MA-gráðu í fatahönnun frá Central Saint Martins í London árið 2021. Hún endurnýtir gjarnan efni sem hún finnur í kringum sig og gefur því nýtt líf í flíkum sem eru hannaðar með einfeldni og innsæi að leiðarljósi. Útskriftarverkefni hennar, Þrjár kenningar um illsku, hlaut skapandi verðlaun L’Oréal Professionel og lagði grunninn að einstöku hönnunarferli hennar. Hönnun hennar hefur meðal annars verið sýnd á London Fashion Week og í Gerðarsafni í Kópavogi.

Smiðjan fer fram í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins en mælst er til að börn mæti í fylgd fullorðinna. Eins og venjulega er þátttaka í listasmiðjum gestum að kostnaðarlausu, líkt og aðgangur að sýningum safnsins. Verið hjartanlega velkomin.